„Þetta eru mikil vonbrigði. Við erum búin að vera tala um og bíða eftir í mjög langan tíma að það yrðu tekin alvöruskref í vaxtamálunum. Öll þessi vinna sem fram fór í tengslum við gerð stöðugleikasáttmálann, var hugsuð sem undirbúningur að því að Seðlabankinn gæti tekið þessi skref,“ segir Jón Steindór Valdimarsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins um vaxtaákvörðun Seðlabanka Íslands.
Hann segist hafa vonast til að vextir lækkuðu en ekki reiknað með lækkun.
„Ég hefði þó talið að það hefði verið skynsamlegt að senda smá skilaboð út, þó það hefði verið mjög lítið, þá hefði verið betra að gera eitthvað heldur en ekkert.“
Í stöðugleikasáttmála ríkisstjórnarinnar, sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins, sem undirritaður var á dögunum, segir að aðilar vinnumarkaðarins treysti því að með sáttmálanum skapist forsendur fyrir því að stýrivextir Seðlabanka Íslands lækki í eins stafs tölu fyrir 1. nóvember 2009 og að þeir og aðrir vextir bankans fari síðan áfram lækkandi. Þá segir ennfremur að til að örva hagkerfið, efla atvinnulífið og bæta stöðu heimilanna sé nauðsynlegt að vextir lækki hratt á næstu mánuðum og að vaxtamunur við útlönd verði ásættanlegur.
„Það er ljóst að þetta vaxtastig er atvinnulífinu og okkur öllum gríðarlega erfitt og vaxtamunurinn sem er á milli Íslands og annarra landa er alveg gríðarlegur. Við erum að glíma við hátt vaxtastig, fall gjaldmiðlsins, sem enginn annar er að glíma við í okkar samkeppnislöndum og svo erum við að glíma við gríðarlega mikinn samdrátt. Það er samdráttur annars staðar en hann er óvíða jafnmikill og hjá okkur. Þannig að þetta hleðst allt upp og gerir það að reka íslensk fyrirtæki gríðarlega erfitt,“ segir Jón Steindór Valdimarsson.
Hann segir að verði ekkert að gert mjög fljótt, eigi enn eftir að síga á ógæfuhliðina.
„Ég býð ekki í það ef ekki fer að rofa til í þessum málum. Ég held að það þurfi ekki mikla spekinga til þess að sjá það að rekstur hann getur ekki staðist þessi skilyrði, það er útilokað. Erfiðleikarnir munu vaxa og eftir því sem við búum lengur við þetta verða alltaf færri og færri sem rísa undir uppbyggingarfasanum. Þar af leiðandi mun erfiðleikatímabilið bara lengjast,“ segir Jón Steindór Valdimarsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.