Fjölnir í Egilshöllina

Borgarráð samþykkti á fundi sínum í dag þjónustu- og afnotasamning við NBI hf. (nýja Landsbankann) um Egilshöll í Grafarvogi. Í samningnum er gert ráð fyrir að til vors 2010 muni íþróttaaðstaðan í Egilshöll verða nýtt meira en verið hefur m.a fyrir knattspyrnuæfingar, skauta, fimleika, bardagaíþróttir, frjálsar íþróttir o.fl.

Frístundaheimili fyrir fötluð börn

Þá mun Ungmennafélagið Fjölnir flytja að hluta með skrifstofur sínar og höfuðstöðvar í Egilshöllina. Einnig mun ÍTR fá aðstöðu fyrir frístundaheimili fyrir fötluð grunnskólabörn úr Grafarvogshverfum.

Landsbankinn mun ráðast í framkvæmdir við lóð og bifreiðastæði auk þess sem ýmsar lagfæringar og framkvæmdir munu eiga sér stað í Egilshöllinni. Þá er gert ráð fyrir því að síðar á árinu verði farið yfir rekstur og afnot af Egilshöllinni til næstu ára. Sérstakt rekstrarfélag á vegum Landsbankans mun annast rekstur Egilshallarinnar.

Hætt við uppbyggingu valla í Gufunesi

Samhliða þessum samningi verður gerður samningur við Ungmennafélagið Fjölni um aukin afnot þeirra af Egilshöllinni og annarri aðstöðu auk þess sem tekið verður á ýmsum aðstöðumálum og samstarfsmálum milli félagsins og borgaryfirvalda. Við það að félagið fær stóraukin afnot af Egilshöll verður fallið frá ýmsum framkvæmdum s.s. uppbyggingu valla á Gufunesi og stúkubyggingu og aðra aðstöðu við Dalhús, sem fyrirhugaðar voru fyrir félagið samkvæmt eldri samningi frá 2007, að því er segir í tilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert