Fyrstu sex mánuði þessa árs hafa 523 fengið útgefið E-303 vottorð til útlanda frá Vinnumálastofnun eða næstum tvöfalt fleiri en allt árið í fyrra. Þá fengu 278 slíkt vottorð.
E-303 vottorðið gerir fólki kleift að halda atvinnuleysisbótum sínum í allt að þrjá mánuði meðan leitað er að vinnu í öðru EES-landi.
Skilyrðið fyrir þessum rétti er þó að menn hafi verið á bótum hér á landi í að minnsta kosti fjórar vikur, að sögn Jóngeirs Hlinasonar, deildarstjóra hjá Vinnumálastofnun.
Langflestir þeirra sem fengið hafa E-303 vottorð það sem af er þessu ári eru þeir sem farið hafa til Póllands eða 285 á móti 189 allt árið í fyrra.
Þeim sem fengið hafa E-303 vottorð vegna flutnings til Norðurlandanna hefur einnig fjölgað mikið miðað við í fyrra. Fyrstu sex mánuði þessa árs héldu 65 til Danmerkur með slíkt vottorð en 25 allt árið í fyrra. Til Noregs hélt 61 fyrstu sex mánuðina en 7 allt árið í fyrra. Nú hafa 33 farið með slíkt vottorð til Svíþjóðar en allt árið í fyrra voru þeir 12.