Launalausir vegna mistaka við lagasetningu

 „Við erum að vinna í að leysa þetta. Við ætlum að óska eftir því að viðskiptaráðherra eða viðskiptanefnd Alþingis gefi út yfirlýsingu um að slitastjórn sé heimilt að greiða fyrrverandi starfsmönnum Spron laun í uppsagnarfresti. Gangi það ekki eftir þarf að breyta lögum sem heimila að starfsmenn fái greidd laun. Þetta eru klárlega mistök við lagasetningu,“ segir Friðbert Traustason, formaður Samtaka starfsfólks fjármálafyrirtækja.

Fyrrverandi starfsmönnum SPRON var í gær tilkynnt að þeir fengju ekki lengur greidd laun í uppsagnarfresti. Rúmlega 100 starfsmenn fengu því engin laun í gær. Ákvörðun um að stöðva launagreiðslur var tekin af slitastjórn Spron á þriðjudag og var tilkynning þar um sett á vef fyrir starfsfólk.

Þau fjármálafyrirtæki sem voru komin í greiðslustöðvun í lok maí, þegar bráðabirgðakvæði við lög um fjármálafyrirtæki var samþykkt á Alþingi, fengu heimild til að greiða laun starfsmanna í uppsagnarfresti. Þetta átti við um Straum og Sparisjóðabankann en Spron var á þeim tíma ekki komið í greiðslustöðvun.

„Það var ekki vilji löggjafans að undanskilja starfsfólk Spron þegar bráðabirgðaákvæðið var sett en slitastjórnin kýs að túlka þetta svona þröngt. Það er skilningur á því hjá ráðuneytinu og viðskiptanefnd að um mistök sé að ræða og að slitastjórn sé heimilt að greiða laun en lagabókstafinn vantar. Það er í raun fáránlegt að túlka þetta svona þröngt en eins og staðan er núna ættu fyrrverandi starfsmenn Spron að fá laun í þessari viku eða næstu,“ segir Friðbert Traustason.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert