Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði samningsniðurstöðuna í Icesave-málinu sambærilega því að við hefðum tapað málinu fyrir dómstólum og að fallist hefði verið á allar kröfur viðsemjenda. Hann sagði ljóst hvert varnarþingið væri í þessu máli, Ísland, og þangað gætu men sótt rétt sinn.
Hann sagði það fullkomna hneisu ef lán Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sé tekið í gíslingu vegna þessa máls, og ef Hollendingar og Bretar ætli að aftengja einstaka ESB-kafla. Íslendingar vilji standa við sínar alþjóðlegu skuldbindingar, en þeir vilji bara fá úr því skorið hverjar þær eru
Bjarni sagði ekki lagaleg rök fyrir því að samþykkja ríkisábyrgðina. Hægt er að vitna í lögfræðileg álit til að fá það staðfest. „Það hefur komið fram að þetta kerfi er ekki smíðað til að taka við hruni bankakerfis. Lagalegu rökin eru ekki til staðar.“
Þá sagði hann þær tölur sem greiða þurfi langt umfram það sem kynnt var utanríkismálanefnd fyrir áramót. „Tölurnar eru ótrúlegar, þær eru svimandi háar.“