Lars Peder Brekk, landbúnaðarráðherra Noregs, segir að Íslendingar trúi greinilega á jólasveininn úr því þeir haldi að þeir geti fengið sérstakar undanþágur varðandi sjávarútvegsmál innan Evrópusambandsins. Þetta kemur fram á norska vefnum VG.
„Íslandi mun ekki takast að fá samþykki Evrópusambandsins fyrir því að þeir fái sérstakar undanþágur í sjávarútvegsmálum. Það er eins og að trúa á jólasveininn,” segir Brekk í samtali við fréttastofuna ANB.Hann segir að aðild Íslands að Evrópusambandinu yrði eins og himnasending fyrir Evrópusambandið sem þá fengi aðild að stærri fiskimiðum og fleiri fiskistofnum.
Íslendingar yrðu hins vegar að afsala sér stjórn fiskveiða í lögsögu sinni og hann telji það því jafnast á við rússneska rúllettu að Íslendingar leggi fiskimið sín undir fyrir aðild að sambandinu.
Brekk segir sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins hafa skilað síversnandi ástandi fiskistofna og að hann hafi ekki trú á því að fyrirhuguð endurskoðun stefnunnar árið 2013 muni skila tilætluðum árangri.„Það verður í raun ekkert gert til að fækka í fiskveiðiflotanum eða stöðva ofveiði. Það veldur áhyggjum að 93% þorska í Norðursjó skuli veiddir áður en þeir verða kynþroska. Evrópusambandið gerir sér grein fyrir vandanum en lætur dægurstjórnmál ráða,” segir hann.
Svíinn Percy Westerlund, sem er sendiherra Evrópusambandsins í Noregi, segir orð Brekk vera hræðsluáróður.„Verði Ísland aðili að Evrópusambandinu þýðir það að Íslendingar hafi náð samningum um sjávarútvegsmál sem íslenska þjóðin er sátt við,” segir hann í viðtali við Aftenposten.
Þá segir hann að hugsanleg aðild Íslendinga að sambandinu hljóti að vekja norska sjómenn og fiskvinnslufólk til umhugsunar enda hafi umræðan um Evrópusambandsaðild í Noregi til þessa markast af yfirborðskenndum hræðsluáróðri.