Strætó í greiðsluþrot hefði ekkert verið að gert, segir Jórunn

mbl.is/Ómar

„Við erum fyrst og síðast að tryggja almenningssamgönguþjónustu sem hefur aldrei verið mikilvægara en nú. Ef ekkert hefði verið að gert hefði fyrirtækið hreinlega farið í greiðsluþrot með haustinu,“ segir Jórunn Frímannsdóttir formaður Stjórnar Strætó bs. vegna gagnrýni Dags B. Eggertssonar í dag.

Jórunn segir margt af því sem Dagur sagði beinlínis rangt. Til dæmis sé fráleitt að halda því fram að framlög sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, sem eiga Strætó bs., aukist ekki. „Sveitarfélögin eru að taka yfir 435 milljóna króna skuld, sem er auðvitað ekkert annað en aukið framlag, auk þess sem þau leggja fram 90 milljónir króna að auki,“ sagði Jórunn við Fréttavef Morgunblaðsins.

Jórunn segir að búist sé við algjörum viðsnúningi í rekstri fyrirtækisins á næstu fimm árum og aðalatriðið sé að tryggja almenningssamgöngur til frambúðar.

Formaður Strætó bs. segir rangt hjá Degi að ekki sé gert ráð fyrir endurnýjun vagna á tímabilinu, en vissulega verði ekki um að ræða jafn viðamikla endurnýjum og hugsanlega hefði verið ákveðin árið 2007.

Dagur nefndi að laun í fyrirtækinu yrði fryst en Jórunn svarar því til að samkvæmt hagspám sé ekki gert ráð fyrir mikilli hækkun launa næstu árin.

Dagur sagði stefnt að stórhækkun fargjaldatekna, um þriðjung. Jórunn segir vissulega rétt að stefnt sé að því að auka fargjaldatekjur. Þær séu nú þriðjungur af rekstrinum en nærri 70% sé framlög frá sveitarfélögunum; stefnt sé að því að hlutfall fargjaldatekna verði um 40%, svipað og að meðaltali í nágrannalöndunum. „Við stefnum að því að hlutfallið aukist á seinni hluta tímabilsins, þegar betur árar á ný.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert