Eitt af fáum málum sem allir stjórnmálamenn á Suðurlandi, þvert á flokksstarf og pólitískar hugsjónir, eru sammála um er að forgangssamgönguframkvæmd eigi að vera breikkun Suðurlandsvegar. Áhersla hefur verið lögð á 10,5 km. langan kafla vegarins milli Selfoss og Hveragerðis. Umferð hefur þyngst mikið á undanförnum árum á þessu svæði. Tæplega 7.000 bílar hafa farið um vegarkaflann á degi hverjum að meðaltali sé horft til áranna 2004 til og með 2008.
Umferðin hefur verið að þyngjast mikið samhliða uppbyggingu sumarhúsabyggðar á Suðurlandi, og einnig aukinni umferð íbúa til höfuðborgarsvæðisins til að sækja vinnu. Til að mynda var umferðin næstum helmingi minni fyrir áratug.
Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar og jafnframt fyrsti þingmaður Suðurkjördæmis, sagði að loknum fundi að ekkert ætti að vera því til fyrirstöðu að hefja framkvæmdir ef stjórnvöld kysu að gera það. „Staða mála er auðvitað flókin, í ljósi efnahagsaðstæðna, og óvissan mikil. Stjórnvöld vinna nú að því að forgangsraða framkvæmdum og niðurstaðan verður ljós 1. september.“
Iðnaðar-, heilbrigðis-, fjármála-, og samgönguráðherra hafa skipað starfshóp sem meta á hvaða framkvæmdir eiga að njóta forgangs í einkaframkvæmd.
58 létust í umferðarslysum á Suðurlandsvegi frá 1972 til og með 2007
10,5 km langur vegarkafli milli Selfoss og Hveragerðis verður breikkaður í 2+2 og 2+1
7 létust á Suðurlandsvegi í bílslysum árið 1995 sem er það mesta á einu ári á einum og sama veginum