Vinnumálastofnun er nú farin að samkeyra færslur sínar við staðgreiðslugrunn ríkisskattstjóra (RSK), í því skyni að fá fram allar þær tekjur sem gefnar hafa verið upp til skatts en mismunandi tekjur geta haft áhrif á rétt til atvinnuleysisbóta.
„Með þessu náum við fram bættu eftirliti, þar sem við getum séð tekjur þeirra sem hafa ekki gefið þær upp hjá okkur. Við munum sjá þær strax,“ sagði Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar. „Hingað til höfðum við ekki hugbúnað í svona vinnslu og unnum þetta eftir á en fáum nú þessar upplýsingar jafnharðan og þær eru tilbúnar hjá RSK. Það eru því að koma fram mun ýtarlegri upplýsingar um þær tekjur sem einstaklingar hafa haft og áttu að gefa upp, sem hafa þá bein áhrif á útreikninginn.“
Gissur sagði að í raun væri ekki verið að gera neitt nýtt, bara gera það fyrr og með skilvirkari hætti.
„Við erum að fá miklu fleiri athugasemdir en áður og þarna eru um 1.700 einstaklingar með tekjur sem þeir höfðu ekki gert grein fyrir og við þurfum að leita skýringa á. Við þurfum þá að endurreikna, skerða og jafnvel fella niður bætur.“