„Þessi samningur fylgir ekki þeim viðmiðunum sem Alþingi setti. Það er okkar kalda hagsmunamat. Við getum ekki skrifað undir þennan samning, það eru of miklir hagsmunir í húfi. Við viljum semja aftur og reyna fá betri samninga,“ sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins í umræðum um Icesave-málið á Alþingi í dag.
Þorgerður Katrín segir að menn hafi verið fara á taugum síðasta haust og á framan af ári. Nú séu forsendur breyttar á alþjóðamarkaði og stjórnvöld annarra þjóða rólegri. Nú ætti að vera hægt að ná betri samningi, þar sem meira tillit er tekið til Íslands og þeirra miklu erfiðleika sem yfir þjóðinni vofa.