Rúmlega 16% telja að skuldir heimilis þeirra séu hærri en markaðsverð þess og ríflega 20% telja að skuldir heimilisins vegna húsnæðis séu hærri en fasteignamat þess. Þetta kemur fram í Þjóðarpúls Gallup.
Helmingur þátttakenda í könnuninni, sem býr í eigin húsnæði, var spurður hvort skuldir heimilisins vegna húsnæðis væru hærri eða lægri en markaðsverð þess og hinn helmingurinn var spurður hvort skuldir heimilisins vegna húsnæðisins væru hærri eða lægri en fasteignamat þess. Ekki reyndist marktækur munur á svörum fólks eftir því hvort það var spurt um skuldir heimilisins miðað viðmarkaðsverð eða fasteignamat.
Jafn margir telja skuldir heimilisins vegna húsnæðis álíka miklar og markaðsverð þess annars vegar og fasteignamat þess hins vegar eða um 16%. Um helmingur þjóðarinnar telur hins vegar að skuldir heimilisins vegna húsnæðis séu lægri en markaðsverð annars vegar og fasteignamat hins vegar.
Um 47% þeirra sem eru yngri en 30 ára telja skuldir heimilisins vegna húsnæðis hærri en markaðsverð/fasteignamat og 31% þeirra sem eru 30-39 ára. Hins vegar telja einungis 7% þeirra sem eru 60 ára eða eldri að skuldirnar séu hærri en markaðsverð/fasteignamat.
Hlutfall þeirra sem telja skuldir hærri en markaðsverð/fasteignamat húsnæðisins er hæst á meðal fólks með 250 þúsund eða minna í fjölskyldutekjur á mánuði.
Rúm 58% telja eignirnar vera meiri en skuldirnar og tæp 16% telja eignirnar álíka miklar og skuldirnar. Hlutfallslega flestir í yngri aldurshópnum telja að eignirnar séu minni en skuldirnar eða um 50%.
Hlutfall þeirra sem telja að eignirnar séu meiri en skuldirnar er hins vegar hæst á meðal fólks í aldurshópnum 60 ára og eldri.
Marktækur munur er einnig á svörum fólks eftir fjölskyldutekjum. Liðlega helmingur þeirra sem eru með lægstu fjölskyldutekjurnar telja að eignir séu minni en skuldir sem er töluvert hærra hlutfall en hjá þeim sem eru með hærri fjölskyldutekjur.