Bílbelti hefðu getað bjargað 36 manns

Á 10 ára tímabili frá 1999 til 2008 létust  177 einstaklingar í umferðinni sem voru í bifreiðum. Þar af voru  73 einstaklingar sem staðfest er að voru ekki í öryggisbelti. Rannsóknir hafa leitt í ljós að þar af hefði mátt forða að minnsta kosti 36 manns frá dauða ef þeir hefðu einfaldlega notað öryggisbelti. Þetta þýðir að u.þ.b. 20% þeirra sem létust í bifreiðum hefðu komist nánast örugglega lífs af með þessum einfalda öryggisbúnaði, að því er segir í tilkynningu frá VÍS og Umferðarstofu. 

Á sama tímabili slösuðust 989 einstaklingar sem voru í bílum alvarlega í umferðinni. Af þeim fjölda voru 235 eða 20,3% sem að er staðfest að voru ekki í öryggisbeltum. Margir þessara einstaklinga lifa við ævarandi örkuml vegna þess eins að öryggisbelti var ekki notað.

Umferðarstofa og VÍS boða til herferðar vegna mikils fjölda alvarlegra slysa sem auðveldlega hefði mátt fyrirbyggja – með öryggisbeltum.

Umferðarstofa og VÍS hafa hrint af stað auglýsingaherferð sem heitir „Notum bílbeltin – alltaf“.

„Ástæða þess að lagt er í þessa herferð er sú að enn er töluverður fjöldi fólks sem tekur þá áhættu að ferðast um í bílum án þess að nota öryggisbelti. Ljóst er  af slysatölum og rannsóknum á umferðarslysum undanfarinna ára að þessi hópur er í mikilli lífshættu.

Auglýsingarnar munu birtast í sjónvarpi, útvarpi og í netmiðlum en einnig hefur verið útbúin umhverfisgrafík sem á áhrifamikinn hátt sýnir  fólki hve lítinn hraða þarf til að valda alvarlegu líkamstjóni. Auglýsingarnar sýna fram á að það að lenda í árekstri á aðeins 55 km hraða án bílbeltis getur verið sambærilegt við það að falla niður úr 10 metrar hæð. Það myndi enginn þora það nema eitthvað öryggistæki eins og dýna tæki höggið af.
Þrátt fyrir þetta eru enn til einstaklingar sem halda að það sé í lagi að aka án bílbelta á 50 km hraða því það verði engin skaði af því," að því er segir í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka