Eimskip sýknað af kröfu Baldurs

Baldur Guðnason, fyrrverandi forstjóri Eimskip
Baldur Guðnason, fyrrverandi forstjóri Eimskip JIM Smart

Eimskip var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag sýknað af kröfu Baldurs Guðnasonar, fyrrverandi forstjóra þess, um greiðslu launa í tvö ár, allt til loka febrúar 2010. Byggir sýknan á því að Baldur hafi misnotað aðstöðu sína og því beri að ógilda starflokasamning við hann.

Samkvæmt dómkröfu Baldurs Guðnasonar fór hann fram á að viðurkenndur verði réttur hans gagnvart Eimskip til óskertra launa, orlofslauna og lífeyrissjóðsframlaga frá 1. maí 2008 til og með 28. febrúar 2010. 

Baldur krafðist þess að viðurkenndur yrði réttur hans gagnvart Eimskip til
óskertra launa, orlofslauna og lífeyrissjóðsframlaga frá 1. maí 2008 til og með 28. febrúar 2010 á grundvelli viðauka við starfssamning. Mánaðarlegar greiðslur hefðu verið um 56.520 evrur á mánuði, þ.e. laun, orlof og lífeyrisframlag. Miðað við gengi evru í dag er um 10 milljónir að ræða á mánuði í tæp 2 ár.

 Þegar samningurinn var gerður voru mánaðalaun Baldurs 3,5 milljónir króna en hann lét af störfum hjá félaginu þann 21. febrúar 2008. Hann var ráðinn til að gegna starfi forstjóra frá og með 1. mars 2007.

Eimskip byggði sýknukröfu sína m.a. á því að ráðningarsamningi Baldurs hafi verið rift, að hann hafi beitt svikum við gerð viðauka á starfssamningi, en einnig var byggt á 33. gr. og 36. gr. samningalaga, þ.e  óheiðarleika og
ósanngirni af hálfu Baldurs. Loks byggði félagið varnir sínar á því að
forsendur fyrir viðauka við ráðningarsamning Baldurs hafi brostið.

Þann 27. nóvember 2007 sendi Baldur þáverandi stjórnarformanni Eimskip, Magnúsi Þorsteinssyni, bréf þar sem hann sagði starfi sínu lausu. Óskaði hann þar eftir því að vera leystur frá störfum fyrir lok desember og að gengið yrði frá starfslokasamningi eins fljótt og kostur væri. Þann 20. febrúar 2008 var síðan samningurinn gerður við hann.

Engir samningar lágu fyrir um launahækkun

Eimskip greiddi Baldri laun samkvæmt samningnum í mars og apríl 2008 samhliða öðrum greiðslum. Í héraðsdómnum kemur fram að samkvæmt upplýsingum frá Eimskip hafi, nokkuð eftir að skrifað var undir starfslokasamninginn, farið að berast vísbendingar um að Baldur hafi ekki upplýst forsvarsmenn Eimskip um ýmis atriði í tengslum við rekstur félagsins sem honum hafi borið að gera auk þess sem grunur hafi risið um möguleg mistök Baldurs í starfi.  Jafnframt kom í ljós að að engir samningar hafi legið fyrir um launahækkun Baldurs sem starfslokasamningurinn byggði á, og hún hafi aldrei verið lögð fyrir stjórn félagsins. 

„Virðist því sem stefnandi hefði gefið formanni stjórnar stefnda vísvitandi rangar upplýsingar á fundi þeirra. Vegna þessa trúnaðarbrests, að mati stefnda, hafi stjórn stefnda, tekið þá ákvörðun að taka til gagngerrar skoðunar viðskilnað stefnanda við stefnda, þar með talið forsendur bónusgreiðslna, en fram hafi komið að forsendur fyrir þeim hafi reynst rangar," að því er segir í héraðsdómi.

Í kjölfarið voru greiðslur til Baldurs stöðvaðar og höfðaði hann málið gegn Eimskip eftir það.

Ímynd í hættu vegna rannsóknar Fjármálaeftirlitsins

Í niðurstöðu dómsins kemur fram að samkvæmt framburði Baldurs og annnarra sem gáfu skýrslu fyrir dómi, sem og gögnum málsins, hafi mátt vera ljóst að þegar skrifað var undir samkomulagið að ýmislegt var að í rekstri Eimskip.

„Kom fram að þá hafi verið að koma í ljós að fjárfestingar stefnda voru langt frá því að vera eins góðar og talið hafði verið, og stjórnendum félagsins hefði mátt vera ljós staða þess mun fyrr."

Þá kemur og fram að í bréfinu þar sem Baldur óskar eftir því að láta af störfum að ímynd félagsins væri í hættu vegna rannsóknar Fjármálaeftirlitsins vegna fjárfestinga félagsins. „Hefur og komið á daginn að félagið stendur mjög illa," samkvæmt úrskurði dómara.

Fékk launahækkun vegna mikilla umsvifa erlendis og stækkunar félagsins

Í málinu kom fram að hækkun á launum Baldurs hafi komið til vegna stækkunar Eimskips og mikilla umsvifa á erlendri grund. 

Ekkert hafi komið fram sem bendi til þess að launahækkunin hafi verið borin undir stjórn félagsins og Baldur hafi ekki fengið greidd laun í samræmi við þá verulegu hækkun sem hann sagði á fundi sínum við gerð viðauka á starfslokasamningnum að hafi orðið á launum sínum. 

„Þegar litið er til þessa, sem og aðdraganda þess að samið var um þessi breyttu laun í margnefndum viðauka, sem fram kom í skýrslum stefnanda og vitna við aðalmeðferð málsins, svo og þess að stefnanda var kunnugt um að laun hans höfðu ekki verið samþykkt af stjórn félagsins, átti stefnanda að vera ljóst að stjórnarformaður stefnda hafi ekki umboð stjórnarinnar til að samþykkja þessar háu launagreiðslur, sbr. 79 grein hlutafélagalaga nr. 2/1995. Ber því að fallast á það með stefnda að stefnandi hafi, gegn betri vitund, misnotað aðstöðu sína og ber því að ógilda samninginn."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka