Ólöf Nordal gagnrýndi Icesave-samkomulagið harðlega nú fyrir skemmtu á Alþingi, í umræðum um ríkisábyrgð fyrir Tryggingasjóð innstæðueigenda vegna Icesave-reikninga Landsbankans. „Við getum ekki prentað erlendan gjaldeyri [...] Hvernig verða skuldirnar borgaðar?“ sagði Ólöf Nordal.
Hún kallaði eftir skýringum á því hvernig erlendar skuldir, ekki aðeins vegna Icesave-samninga heldur einnig atriða, yrðu greiddar. „Það sem mestu skiptir, er að við getum framleitt fyrir það mikinn gjaldeyri að það dugi fyrir erlendum skuldum[...] Ég er viss um að þetta samkomulag verði samþykkt hér á Alþingi. En einmitt vegna þess, vil ég fá skýringar frá hæstvirtum fjármálaráðherra [Steingrími J. Sigfússyni] á því hvernig þessar skuldir verða borgaðar. Mér finnst þetta [Icesave-samkomulag innsk. blm.] vont samkomulag“
Steingrímur sagðist hafa fulla trú á því að íslenska þjóðin gæti komist upp úr þeim öldudal sem hún væri í. „Tiltrúin er ekki síst mikilvæg í þessu máli. Viljum við reyna að komast upp úr þessu? Ég segi já,“ sagði Steingrímur J.
Hann sagði allar forsendur til þess að skapa nægilegan gjaldeyri í framtíðinni. „Við erum rík og þróuð þjóð, sem býr yfir miklum auðlindum, ólíkt mörgum öðrum þjóðum. Við höfum alla burði til þess að komast upp úr þessu.“
Steingrímur ítrekaði síðan að hann teldi Icesave-samninginn grundvallaratriði fyrir því að takast á við þau vandamál sem „því miður“ væru umflýjanleg.