Hættir sem forstjóri Landsvirkjunar

Friðrik Sophusson
Friðrik Sophusson Ásdís Ásgeirsdóttir

Friðrik Sophusson hefur ákveðið að láta af starfi forstjóra Landsvirkjunar í haust en hann hefur gegnt starfinu frá 1. janúar 1999, eða í rúm tíu ár. Friðrik hafði ætlað sér að hætta störfum um síðustu áramót en vegna gjörbreyttra aðstæðna fór stjórn fyrirtækisins þess á leit við Friðrik að hann héldi áfram störfum sem forstjóri í allt að tvö ár.

Að sögn Friðriks setti hann það sem skilyrði þegar hann var beðinn um að starfa áfram hjá fyrirtækinu að það yrði ekki lengri tími en eitt ár. Skýrist það af fjölskylduaðstæðum en eiginkona Friðriks starfar erlendis í utanríkisþjónustunni.

Friðrik er fæddur í Reykjavík 18. október 1943 og var alþingismaður Reykvíkinga frá árinu 1978 þar til hann tók við starfi forstjóra Landsvirkjunar. Hann var iðnaðarráðherra frá 1987 til 1988 og fjármálaráðherra frá 1991 til 1998.

Síðastliðið sumar tilkynnti Friðrik stjórn áform sín um að láta af störfum í lok árs 2008. Starf forstjóra var auglýst laust til umsóknar 1. september 2008 og var umsóknarfrestur síðan framlengdur til 26. september. Alls bárust 55 umsóknir um starfið.

Ekki liggur fyrir hver tekur við sem forstjóri Landsvirkjunar en starfið verður auglýst til umsóknar á sunnudaginn.

Í samtali við mbl.is segir Friðrik að þegar hann var beðinn um að gegna starfinu áfram í október í fyrra hafi ríkt mikil óvissa um framtíð fyrirtækisins enda skuldir Landsvirkjunar gríðarlega miklar. 

„En nú liggur fyrir að fyrirtækið hefur lausafé í tvö ár til að greiða afborganir og vexti af lánum án þess að þurfa  að taka ný lán. Það þarf að nota þennan tíma vel til að styrkja lausafjárstöðu Landsvirkjunar sem verið lækkuð í lánshæfiseinkunn nú nýverið vegna veikleika ríkisins. Það þýðir að það verður erfitt að afla fjár til nýrra verkefna. Þess vegna munum við á næstu vikum vinna með ríkisstjórninni á grundvelli stöðugleikasáttmálans til að freista þess að koma framkvæmdum af stað á ný. Það er auðvitað ljós í myrkrinu að Kárahnjúkavirkjun skilar fullum afköstum og tekjum. Útflutningur á áli ásamt fiskútflutningi skilar nú vöruskiptaafgangi sem er forsenda þess að við komumst út úr kreppunni," segir Friðrik í samtali við mbl.is.

Friðrik hefur eins og áður segir gegnt starfi forstjóra Landsvirkjunar í rúm tíu ár og segir að þetta hafi verið viðburðaríkur og skemmtilegur tími með stórkostlegu samstarfsfólki.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert