Húsleitir í máli Hannesar lögmætar

Hannes Smárason
Hannes Smárason mbl.is/Golli

Húsleitir efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra og haldlagning á gögnum í tengslum við rannsókn á meintum hegningarlagabrotum Hannesar Smárasonar kaupsýslumanns, var lögmæt, samkvæmt dómi Hæstaréttar. Dómurinn staðfesti þar með niðurstöðu héraðsdóms Reykjavíkur en Hannes Smárason kærði niðurstöðuna til Hæstaréttar.

Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra framkvæmdi húsleit 3. júní sl. á grundvelli úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júní 2009 í húsnæði lögmannsstofunnar Logos og í tveimur fasteignum í eigu Hannesar Smárasonar kaupsýslumanns, að Fjölnisvegi 9 og Fjölnisvegi 11 og lagði hald á ýmis gögn.

Leitin var gerð í því skyni að finna og haldleggja skjalleg sönnunargögn sem og rafræn gögn sem aðgengileg eru á leitarstöðum hvar svo sem þau kunna að vera varðveitt, og haldleggja muni sem þar kunna að finnast og tengjast rannsókn á meintum brotum Hannesar Smárasonar.

Um er að ræða meint auðgunarbrot vegna viðskipta FL Group hf., (nú Stoða hf.) tengd flugfélaginu Sterling Airlines A/S og meint brot gegn hlutafélagalögum. Umrædd brot séu talin hafa átt sér stað á árinu 2005. Auk þess hefur efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra til frekari rannsóknar meint skattalagabrot, sem kærð voru til embættisins þann 11. maí 2009 af skattrannsóknarstjóra ríkisins. Kæruna má rekja til rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins á félaginu FL Group hf.

Hannes Smárason kærði húsleitina og krafðist viðurkenningar á því að húsleitirnar hefðu verið ólögmætar. Þá krafðist hann þess að efnahagsbrotadeildinni yrði gert að skila tafarlaust öllum gögnum sem hald hafði verið lagt á í áðurnefndum húsleitum, að efnahagsbrotadeildinni væri óheimilt að kynna sér þau og yrði gert að eyða öllum afritum af þeim sem kynnu að hafa verið vistuð á tölvum efnahagsbrotadeildar.

Hannes Smárason byggði í kæru sinni einnig á því að hald hefði verið lagt á gögn í húsnæði Logos sem vörðuðu aðra viðskiptamenn stofunnar en Hannes sjálfan og fyrirtæki hans.

Héraðsdómur taldi húsleitirnar og haldlagningu gagna lögmæta og kærði Hannes úrskurðinn til Hæstaréttar.

Í niðurstöðu dóms Hæstaréttar segir að fyrir hafi legið að Hannes væri grunaður um refsiverða háttsemi. Skilyrði fyrir því að leggja hald á gögn hjá Hannesi og lögmanni hans 3. júní 2009 hefðu því verið uppfyllt. Þá hefði Hannes ekki við meðferð málsins gert sérstakar kröfur sem beint hefði verið að tilteknum gögnum sem hald var lagt á 3. júní 2009 umfram það sem hann teldi að hefði verið heimilað með dómsúrskurðinum 2. júní 2009, heldur látið við það sitja að beina kröfum sínum að öllum hinum haldlögðu gögnum. Það væri ekki hlutverk dómstóla að laga kröfur hans að málatilbúnaði hans að þessu leyti. Þá var talið að Hannes Smárason gæti ekki átt aðild að kröfu um skil og meðferð á gögnum sem snertu viðskipti lögmanns hans við aðra viðskiptavini en Hannes sjálfan.

Í yfirlýsingu sem Hannes Smárason sendi frá sér í lok júní, segist hann hafa lagt sig fram um að fylgja þeim lögum og reglum, sem viðskiptalífinu hafi verið sett. Segist Hannes sannfærður um, að niðurstaða á rannsókn á gerðum hans verði sú að engin lög eða reglur hafi verið brotin.

Dómur Hæstaréttar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert