Fulltrúaráð Framsóknarfélaganna í Reykjanesbæ hefur sent frá sér ályktun vegna viðskipta Reykjanesbæjar með eignarhluti sveitarfélagsins í HS Orku og HS Veitum og kaupa sveitarfélagsins á landareignum af HS orku utan Járngerðisstaða og Hópstorfu.
Í ályktuninni er andstöðu lýst við viðskiptin. Segir þar m.a. að ekki liggi fyrir verðmat á HS Orku eða HS Veitum og að meirihluti Sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ hafi ekki umboð kjósenda í Reykjanesbæ til að ráðstafa eignarhluta sveitarfélagsins í orkuhluta Hitaveitu Suðurnesja með þeim hætti sem fyrirhugað sé. Þá er efasemdum lýst varðandi fjárhagslegt heilbrigði Geysir Green Energy.
Ályktunin fer í heild sinni hér á eftir:
„Fulltrúaráðsfundur Framsóknarfélaganna í Reykjanesbæ haldinn 2. júlí 2009 leggst alfarið gegn fyrirhugðum viðskiptum Reykjanesbæjar annars vegar við Geysir Green Energy (GGE) vegna kaupa og sölu á hlutafé í HS Orku og HS veitum og hins vegar við HS Orku vegna kaupa á landareignum HS Orku utan Járngerðisstaða og Hópstorfu.
Umboðslaus meirihluti Sjálfstæðismanna
Fundurinn telur að meirihluti Sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ hafi ekki umboð kjósenda í Reykjanesbæ til að ráðstafa eignarhluta sveitarfélagsins í orkuhluta Hitaveitu Suðurnesja með þeim hætti sem fyrirhugað er. Umræða um sölu á þessum hlut til einkaaðila hefur lítið sem ekkert átt sér stað og í sveitarstjórarkosningum árið 2006 þvertóku Sjálfstæðismenn fyrir það að til stæði að selja eignarhluta Reykjanesbæjar í Hitaveitu Suðurnesja. Því ber að vísa málinu í almenna kosningu meðal íbúa sveitarfélagsins þar sem málið yrði kynnt íbúum rækilega og umræður ættu sér stað meðal íbúa.
Einkasala í skjóli lokaðra fundaSé vilji til þess meðal íbúa sveitarfélagsins að lokinni ítarlegri kynningu og umræðu að selja eignir sveitarfélagsins skal geraþað með gagnsæjum og opinberum hætti og gefa fleiri aðilum tækifæri á að taka þátt og e.t.v. bjóða í hlut Reykjanesbæjar í fyrirtækinu. Í svona stóru máli hlýtur að teljast eðlilegt að gagnsæi ríki og að fleiri aðilum verði gefinn kostur á að bjóða í hlut Reykjanesbæjar, enda er um ráðandi hlut að ræða í fyrirtækinu og vel hugsanlegt að fleiri hefðu áhuga á að koma að því heldur en GGE. Í raun er um að ræða einkasölu sem hvergi hefur fengið opinbera umræðu eða verið auglýst eftir áhugasömum aðilum. Einungis hefur átt sér stað umræður á lokuðum fundum milli sjálfstæðismanna og forsvarsmanna GGE. Skoða þarf því vel hvort fyrirætlanir sjálfstæðismanna standist lög um opinber innkaup.
65. gr. sveitastjórnalaga ekki fullnægtSjálfstæðismenn hafa samþykkt að ganga til samninga án þess að fyrir liggi umsögn sérfróðra aðila eins og 65. gr. sveitastjórnalaga krefst sem fjallar um miklar fjárfestingar og sölu fasteigna.
Ekki liggur fyrir verðmat á HS Orku eða HS VeitumSkv. útreikningi á raunvirði tilboðsins skv. minnisblaði Deloitte er 11,4 milljarðar þrátt fyrir að uppgefið nafnverð sé 13,1 milljarðar. Munar þar 1,7 milljarði. Raunvirði að mati Deloitte skv. kauptilboði getur hæst orðið 12 milljarðar en gæti líka orðið tæpir 10 milljarðar. Verðið er því ekki það sama og verðið var þegar hlutur ríkisins var seldur árið 2007 til GGE sem er þvert gegn fullyrðingum bæjarstjóra í fjölmiðlum. Þá setur fundurinn verulegar athugsemdir við að Reykjanesbær taki sem greiðslu tæplega 34% hlut í HS Veitum að andvirði 4,3 milljarða en með þessu er Reykjanesbær að binda yfir 9 milljarða í því fyrirtæki og ekki liggur fyrir verðmat á HS Veitum. Ekki hafa verið færð nein rök fyrir því hvaða tilgangi það þjóni fyrir Reykjanesbæ að eignast 70% hlut í fyrirtæki sem sér um dreifingu á vatni og orku til margra annara sveitarfélaga utan Reykjanesbæjar og greiða fyrir það rúma fjóra milljarða. Um slík veitufélög gilda lög um að meirihluti sé í eigu opinberra aðila og er lögunum nú þegar fullnægt og því ástæðulaust fyrir íbúa sveitarfélaga að binda svo mikið fé í þessu félagi. Sé vilji til þess meðal íbúa Reykjanesbæjar að selja erlendum aðilum orkuframleiðsluhluta Hitaveitu Suðurnesja þá er rétt að gerð verði sú krafa að greitt verði fyrir með peningum.