Nú laust fyrir klukkan ellefu í kvöld höfðu hátt í 26 þúsund bílar farið um Suðurlands- og Vesturlandsvegi í báðar áttir frá borginni. Samkvæmt mælingum Vegagerðarinnar hefur Suðurlandsvegurinn þó vinninginn. 12.818 bílar hafa ekið um Sandskeið, en 12. 535 um Kjalarnesið.
Suðurlandið virðist því hafa vinninginn yfir Norðurlandið ef draga á ályktanir um ferðalög landans þessa stóru ferðahelgi, en þó ber að hafa í huga að þótt straumurinn hafi að mestu legið út úr bænum ná tölurnar einnig yfir þá sem stefndu inn í borgina.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var virk í umferðareftirlitinu í allt kvöld og fór umferðin vel af stað að hennar sögn. Um helgina verður aukið eftirlit og mun lögreglan m.a. taka höndum saman við Landhelgisgæsluna um eftirlit úr lofti.