Róttækar breytingar eru fyrirhugaðar á skipulagi háskólastarfs í landinu, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins. Meðal annars er horft til þess að hagræða í rekstri en um leið að styrkja framtíðartekjugrundvöll skólanna. Er sérstaklega horft til þess að jafna framlög til skólanna en einkareknir skólar, s.s Háskólinn í Reykjavík og Háskólinn á Bifröst, hafa fengið jafn hátt framlag á nemanda og ríkisreknu skólarnir. Þeir hafa hins vegar getað á móti innheimt skólagjöld til viðbótar við ríkisframlögin og ákveðið sjálfir fjárhæð þeirra gjalda.
Lög um ríkisháskólana, s.s. Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri, gera hins vegar ekki ráð fyrir gjaldtöku af nemendum umfram svonefnd skrásetningargjöld sem eru föst fjárhæð.
Þessi munur hefur lengi verið umdeildur og hefur m.a. verið vikið að honum í skýrslum Ríkisendurskoðunar frá árunum 2005 og 2007.
Innan rýnihóps sem Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra skipaði fyrr í sumar, til að fjalla um hlutverk og umgjörð háskóla, vísinda og nýsköpunar í landinu, hefur verið um það rætt að breytingarnar á tekjustofnum háskólanna séu forsenda frekari breytinga sem gera þarf vegna breyttra efnahagsaðstæðna í landinu og mikilvægs hlutverks háskólanna í uppbyggingarstarfinu sem framundan er.