Davíð Oddsson: Ekki setja þjóðina á hausinn

Davíð Oddsson, fyrrverandi seðlabankastjóri
Davíð Oddsson, fyrrverandi seðlabankastjóri mbl.is/Ómar Óskarsson

„Þið getið út af fyrir sig sett Björgólf Guðmundsson á hausinn og eruð sjálfsagt komnir langleiðina með það, en þið hafið ekkert leyfi til þess að setja íslensku þjóðina á hausinn,“ sagði Davíð Oddsson, fyrrverandi seðlabankastjóri, við þá Halldór J. Kristjánsson og Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóra Landsbankans, á fundi í Seðlabankanum snemma árs í fyrra, þar sem bankastjórarnir reifuðu sjónarmið Landsbankans um að ríkið bæri ábyrgð á Icesave-skuldbindingum Landsbankans.

Þetta kemur fram í ítarlegu viðtali Morgunblaðsins við Davíð Oddsson um Icesave-málið í sunnudagsútgáfu blaðsins.

Gagnrýndi Icesave-samninga harkalega

Þar kemur jafnframt fram að Davíð ritaði Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, bréf þann 22. október í fyrra, þar sem hann gagnrýnir mjög harkalega áform stjórnvalda um að taka á sig stórkostlegar erlendar skuldbindingar, sem myndu sliga íslenskan almenning. „Þetta eru ekki skuldbindingar íslenska ríkisins, þetta eru ekki skuldbindingar íslenskra borgara, þetta eru skuldir Landsbankans,“ segir Davíð.

Davíð greinir frá því í viðtalinu að til séu skjöl, gögn og fundargerðir, sem styðji mjög málstað Íslendinga, í þá veru, að þeim beri engin lagaleg skylda til þess að borga skuldir Landsbankans vegna Icesave.

Vill að skýrsla OECD verði birt opinberlega

Davíð segir þessi gögn vera til í stjórnkerfinu og vill að þau verði birt opinberlega. Í utanríkisráðuneytinu sé til skýrsla um tryggingamál og innstæðutryggingasjóði, sem unnin var af nefnd á vegum OECD, undir formennsku Jean-Claude Trichet, sem nú er orðinn bankastjóri Seðlabanka Evrópu. Í þeirri skýrslu komi fram að evrópskar reglur um innstæðutryggingar gildi ekki ef um algjört bankahrun er að ræða í viðkomandi landi.

Segir ráðherra hafa stórskaðað málstað Íslendinga

Davíð telur að yfirlýsingar ráðherra núverandi ríkisstjórnar, bæði Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra og Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra, um að Íslendingar séu skuldbundnir Bretum og Hollendingum hvað varðar Icesave, hafi stórskaðað málstað Íslendinga. Hann segir að Bretar og Hollendingar eigi að sækja að Íslendingum með því að fara dómstólaleiðina.

Við viljum borga skuldir okkar, en við viljum fá úr því skorið að við séum bundin að lögum að borga, segir Davíð Oddsson í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Halldór J. Kristjánsson og Sigurjón Þ. Árnason fyrrum bankastjórar Landsbankans
Halldór J. Kristjánsson og Sigurjón Þ. Árnason fyrrum bankastjórar Landsbankans mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra. Ómar Óskarsson
Geir H. Haarde fyrrverandi forsætisráðherra
Geir H. Haarde fyrrverandi forsætisráðherra mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert