Eftir Pétur Blöndal
„Hann tók því illa,“ sagði Geir H. Haarde við blaðamann Morgunblaðsins í trúnaðarsamtali í október í fyrra, en fyrr um daginn hafði hann tilkynnt forsætisráðherra Hollands að Íslendingar hygðust ekki standa við viljayfirlýsingu eða minnisblað um að ábyrgjast lágmarksinnstæður á Icesave-reikningum í Hollandi.
Þetta kemur fram í ítarlegri umfjöllun um Icesavesamninginn í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.
„Minnisblöð eru ekki skuldbindandi,“ segir Árni Mathiesen, sem þá var fjármálaráðherra. „Ef minnisblöð væru það, þá væri búið að byggja mörg álver við Húsavík.“
Eftir þetta náðist sátt um sameiginleg viðmið, sem nýr útgangspunktur viðræðna, og hófust samhliða viðræður við Hollendinga, Breta og Þjóðverja. Viðmiðin fólu í sér að tekið yrði tillit til „hinna erfiðu og fordæmislausu aðstæðna“ sem Ísland væri í og „knýjandi nauðsynjar þess að ákveða ráðstafanir sem gera Íslandi kleift að endurreisa fjármála- og efnahagskerfi sitt“.
„Í meginatriðum snerist þetta ákvæði um að við myndum ráða við að taka á okkur þessar skuldbindingar og þetta myndi ekki hamla okkur í því að byggja upp hagkerfið á ný eftir þetta áfall,“ segir Árni.
„Einnig var talað um endurskoðunarákvæði sem gerðu ráð fyrir að ef innstæðutryggingakerfið yrði endurskoðað og gert sameiginlegt, þá myndum við njóta þess í okkar samningi. Þriðja atriðið var það að ESB myndi fylgjast með viðræðunum og íslenska samninganefndin hefði því þann kost að fá ESB að málinu ef hún var ósátt við afstöðu Hollendinga og Breta.“