Það er ekki á hverjum degi sem Húsvíkingar sjá snjósleða á ferðinni yfir sumartímann enda yfirleitt snjólétt sumur við Skjálfanda. Það gerðist þó í veðurblíðunni í dag þegar ofurhuginn Eyþór Viðarsson stökk fram í sjó á Ski-doo Mach Z sleðanum sínum frá hafnarvoginni og endaði í fjörunni sunnan undir Stangarbakkanum.
Hann lét ekki þar við sitja heldur fór aðra ferð úr fjörunni og tók land í stuttan tíma í fjörunni undir Beinabakka og aftur út fyrir höfnina, snéri svo við og endaði ferð sína upp í rennunni inn í höfninni. Áætla má að samtals hafi Eyþór ekið um 3,5 kílómetra á sjó og vakti uppátækið óskipta athygli gesta og gangandi.
Eyþór sagði þegar í land var komið að sig hafi lengi dreymt um að prófa þetta og loks látið verða af því. „Og þetta var geðveikt,“ sagði hann og bætti við að erfiðast var að keyra inn höfnina og þess vegna hafi hann tekið nokkrar ferðir fyrir utan hana til að finna sig á sleðanum. Ekki er vitað til þess að slíkt hafi verið gert áður enda ráku menn upp stór augu sem þetta sáu, jafnt heimamenn sem ferðamenn.