Veðurklúbburinn á Dalbæ, dvalarheimili aldraðra á Dalvík, kom saman til fundar þann 30. júní til að fara yfir sumarveðrið fram að þessu og spá í spilin fyrir framhaldið. Kemur fram á vefnum Dagur.net að fundarmenn hafi verið afar ánægðir með júníspána og telja að hún hafi gengið vel eftir.
Landsmenn geta því vonað að júlíspá þeirra félaga muni ganga jafnvel eftir, því félagar í Veðurklúbbnum áætla að júlímánuður verði mun hlýrri en júní. Þó muni þokuloft liggja við ströndina. Einn fundarmanna vildi jafnframt halda því fram að í júlí kæmu nokkrir rigningardagar en ekki fylgir sögunni hversu vel aðrir félagar tóku í þá fullyrðingu.
Þann 22. júlí kviknar nýtt tungl í NNA kl. 02:35 og spá klúbbfélagar suðlægum áttum upp úr því. Að lokum er á vefsíðunni Dagur.net birt hugleiðing frá einum klúbbfélaga í bundnu máli sem spratt upp úr fundinum:
Lifað höfum langan dag
á leiðinni stundum hrösum.
Senn er komið sólarlag
og svefn á næstu grösum.