Ekki fundið neina slíka skýrslu

Icesave reikningur Landsbankans
Icesave reikningur Landsbankans Retuers

„Okkur hefur ekki tekist að finna neina skýrslu sem svarar til þessarar lýsingar,“ segir Kristján Guy Burgess, aðstoðarmaður Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra. Davíð heldur því fram í viðtali í Morgunblaðinu í dag að í utanríkisráðuneytinu sé til skýrsla sem unnin hafi verið af nefnd á vegum OECD undir formennsku Jean-Claude Trichet þar sem fram komi að evrópskar reglur um innistæðutryggingar gildi ekki ef um algjört bankahrun er að ræða í viðkomandi landi.

 Kristján segir lýsingar Davíðs sérkennilegar, að um sé að ræða einhverja leyniskýrslu sem einhver sitji á. „Í fyrsta lagi er OECD samtök ríka og ég veit ekki til þess að þau geri neinar leyniskýrslur. Hinsvegar getur verið að Davíð sé þarna að vísa til greinar í árskýrslu franska seðlabankans frá árinu 2000 þegar Trichet var seðlabankastjóri.“ Sú skýrsla sé hinsvegar ekki leynilegri en svo að hún er aðgengileg á internetinu.

Í skýrslunni segir Kristján að finna málsgrein sem Davíð sé hugsanlega að vísa til, en hann notist þá hinsvegar aðeins við fyrri hluta hennar því lesi menn málsgreinina til enda komi fram að viðkomandi þá taki öryggisnetið við, þ.e. viðkomandi ríki og seðlabankar stígi þá inn í sem ábyrgðaraðilar.

Orðrétt segir í frönsku skýrslunni: „Það hefur verið samþykkt að innistæðutryggingar geta hvorki né eiga að fást við kerfisbundna bankakreppu, sem fellur undir aðra hluta öryggisnetsins, s.s. eftirlitsaðila, seðlabanka og ríkisstjórn.“ 

Í þessu samhengi minnir Kristján líka á viðtal sem fréttamaður Channel 4 í Bretlandi tók við Davíð Oddsson í febrúar 2008, mánuði eftir fundi í London þar sem Seðlabankinn sagði í minnisblaði að íslensku bankarnir hefðu stefnt sér og íslensku fjármálalífí í mikla hættu. Í viðtalinu sagði Davíð hinsvegar að treysta mætti á íslensku bankana, þeir stefni í rétt átt og fagna beri velgengi þeirra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka