Fréttaskýring: Viðvarandi varpkreppa hjá lundum

mbl.is

Lundavarp í Vestmannaeyjum er um mánuði síðar á ferðinni nú en í hefðbundu árferði. Varpinu er lokið í sumar og er talið að einungis um helmingur varpstofnsins hafi orpið, að sögn Erps Snæs Hansen, sviðsstjóra vistfræðirannsókna hjá Náttúrustofu Suðurlands. Varphlutfallið er breytilegt milli staða en Erpur telur meðaltalið liggi nálægt 50% nú. Sambærilegt varphlutfall í fyrra var 62%.

Pysjurnar klekjast úr eggjum á 42 dögum að meðaltali. Erpur telur að klakið muni standa sem hæst undir lok júlí. Í hefðbundnu árferði þroskast pysjurnar á 34-44 dögum (miðgildi 39 dagar) þar til þær yfirgefa lundaholuna. Vaxtarhraðinn fer eftir ætisframboði. Ætisskortur undanfarin sumur hefur valdið því að pysjurnar hafa þroskast seint. Sumarið 2007 tók það pysjurnar 49 daga að verða fullgerðar en 58 daga í fyrra að meðaltali.

Í hefðbundnu árferði hafa fyrstu pysjurnar sést í Vestmannaeyjabæ skömmu eftir þjóðhátíð. Í sumar er hætt við að lítið verði um pysjur í ágúst. Þær sem komast upp taka ekki fyrstu vængjatökin fyrr en ötulir pysjusafnarar verða löngu byrjaðir í skóla eftir miðjan september.

Merkingar og mælingar á pysjum í Vestmannaeyjabæ frá 1971 sýna að þegar pysjurnar eru seint á ferðinni koma færri pysjur í bæinn og eru mikið léttari en þegar þær eru fyrr á ferðinni. Endurheimtur á síðbúnum pysjum eru miklu verri, um 4%, en á þeim sem eru fyrr á ferðinni, 14-18%. Það bendir til þess að síðbúnar pysjur lifi síður af fyrsta veturinn.

Erpur segir að svo virðist sem lundinn þurfi að leita langt frá Eyjum til að komast í æti. Uppistaðan í fæði lundans er marsíli, en brestur hefur orðið í viðkomu þess undanfarin sumur kringum Eyjarnar. Lunda hefur orðið vart á Selvogsbanka og telur Erpur líklegt að um Eyjalunda sé að ræða enda ekki öðrum stórum lundabyggðum til að dreifa nær svæðinu.

Hátæknimerki á lundum

Það þótti fréttnæmt við lundarannsóknirnar á Farne-eyjum að notuð eru hátæknimerki sem sett eru á lundana til að fylgjast með viðgangi stofnsins. Miðað er við að merkið megi ekki vega meira en 4% af þyngd fuglsins. Lundi er um 400 grömm svo merkið má mest vega 16 grömm. Annars vegar eru notuð merki sem skrá GPS staðsetningu fuglsins á mínútufresti. Merkin eru límd á fuglana og losna af þeim eftir fjóra daga. Þá er merkjunum safnað og lesið af þeim. Einnig eru notaðir hnattstöðuritar (geolocators) sem eru miklu minni. Þeir skrá birtutíma hvers dags og út frá honum má reikna hnattstöðu fuglsins.

Nytja og rannsaka

Vestmannaeyjabær, Náttúrustofa Suðurlands og Félag bjargveiðimanna í Eyjum hafa undirritað samkomulag um nytjar og rannsóknir á lunda í Vestmannaeyjum. Í því felst m.a. að Náttúrustofan, sem gerði tillögu um veiðistopp, mun veita lundarannsóknum forgang í sumar. Einkum verða gerðar rannsóknir á varpi og afkomu pysja. Einnig verður horft til fæðuöflunar og annars sem hefur áhrif á viðkomu stofnsins. Þá verða gerðar rannsóknir á afla lundaveiðimanna.

Veiðarnar eru taldar hafa hverfandi áhrif á lundastofninn og álitið er að viðkomubresturinn sé ekki veiðum að kenna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert