Ósvífin og ódýr afgreiðsla á eigin ábyrgð

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra. Árni Sæberg

„Ég hef aldrei séð ódýrari eða ósvífnari afgreiðslu á eigin aðild að máli heldur en hjá Davíð í þessu viðtali,“ segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra um viðtal Morgunblaðsins við Davíð Oddsson fyrrverandi Seðlabankastjóra í dag.

„Við höfum ekkert sagt hér sem ekki var margsagt áður og ekki bara sagt heldur undirritað af ráðherrum í fráfarandi ríkisstjórn,“ segir Steingrímur um þær fullyrðingar Davíðs í Morgunblaðinu í dag að yfirlýsingar Steingríms og Jóhönnu Sigurðardóttur um Icesave hafi stórskaðað málstað Íslendinga.

„Davíð Oddson, einhver valda- og áhrifamesti maður á Íslandi í hartnær tvo áratugi, kemur nú fram að því er virðist að eigin áliti þannig að hann beri enga ábyrgð á einu eða neinu sem úrskeiðis hafi farið og það sé allt einhverjum öðrum að kenna og jafnvel sérstaklega þeim sem eru að reyna að bjarga hlutunum eftir hans valdatíð,“ segir Steingrímur.

Svart á hvítu með undirskrift Davíðs

Davíð sé það mikill þátttakandi í atburðarásinni sjálfur að það sé umhugsunarefni að hann kjósi að blanda sér í umræðuna með þessum hætti. „Það er fyrst og fremst með vísan til þess í hvaða farveg málið var sett af hálfu fyrrverandi ríkisstjórnar með bréfum frá íslenskum ráðaneytum, með yfirlýsingu fyrrverandi forsætisráðherra, með undirritun minnisblaða og samstarfyfirlýsinga. Og þar á meðal er samstarfyfirlýsing við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn í nóvember 2008 sem Davíð Oddsson seðlabankastjóri undirritar sem annar af tveimur fulltrúum íslenskra stjórnvalda.“

Þar standi svart á hvítu að Ísland undirgangist ábyrgð sína á innistæðutryggingunum að fullu. Steingrímur segir ennfremur að Davíð virðist í viðtalinu rugla saman skýrslum og af hverjum þær hafi verið unnar sem bendi til að hann hafi mjög lauslega kynnt sér málin. Sérstaklega sé ævintýralegt hvernig hann reyni að snúa málinu þannig á haus að það sé allt saman á ábyrgð núverandi ríkisstjórnar. „Ég hef aldrei nokkurn tíma séð einn mann reyna að komast undan sjálfum sér með þessum hætti, þetta er með því ævintýralegasta sem ég hef séð.“

Vonaði að þætti Davíðs væri lokið

„Ætlar hann með þessu að hjálpa þeim sem eru teknir við keflinu? Er þetta aðgerð af hans hálfu svipuð heimsókn hans á landsfund Sjálfstæðisflokksins í vetur? Er það Davíð Oddsson eða framtíð Íslands sem skiptir máli hér? Ég verð að játa að ég átta mig ekki alveg á því hvað að baki liggur.“

Þannig segir Steingrímur ekkert efnislegt í viðtalinu sem standist eða skipti neinu máli. „Ég hélt nú satt best að segja að þessum kafla í íslenskri stjórnmála- og fjölmiðlasögu væri lokið að allt færi af hjörunum þegar heyrist í Davíð Oddssyni. Ég var farinn að vona að hann væri sáttur við sitt hlutskipti, hættur í stjórnmálum og kæmist vel af en menn ætla seint að komast út úr þessari meðvirkni.“

Davíð Oddsson, fyrrverandi seðlabankastjóri
Davíð Oddsson, fyrrverandi seðlabankastjóri Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert