„Það er ekkert að fara að breytast"

Frá framkvæmdum Ístaks við virkjun á Grænlandi.
Frá framkvæmdum Ístaks við virkjun á Grænlandi.

Loftur Árnason, forstjóri Ístaks segir fækkun starfsmanna fyrirtækisins hafa legið í loftinu að undanförnu og að áform um samdrátt í vegagerð hafi gert útslagið.  

Hundrað og fimmtíu starfsmönnum Ístaks var tilkynnt nú um mánaðarmótin að þeir muni missa vinnu sína hjá fyrirtækinu á næstu mánuðum en til stendur að starfsmönnum fyrirtækisins verði fækkað um 270 á næstu mánuðum vegna verkefnaskorts. Starfsmenn þess eru nú um 530.

Loftur sagði í samtali við blaðamann mbl.is í dag að um fjörutíu þeirra sem sagt var upp hafi verið fastráðnir en aðrir með tímabundna samninga. Þeim hafi verið sagt að þeir samningar yrðu ekki endurnýjaðir.

Þá sagði hann að fækkun starfsmanna hafa legið í loftinu það sem mörg verkefni fyrirtækisins séu nú á lokastigi. „Við vorum ágætlega staddir þegar ósköpin gengu yfir í haust en síðan þá hefur sama sem ekkert nýtt komið inn," sagði hann. „Við höfum engin útboð fengið síðan í ágúst. Það hefur bara ekkert gerst. Það er allt steindautt og nýjar upplýsingar um samdrátt í vegagerð sýna það svart á hvítu að það er ekkert að fara að breytast." 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert