Framkvæmdastjórn Landspítala hefur ákveðið að sameina bráðamóttöku við Hringbraut og slysa- og bráðadeild í Fossvogi í eina bráðadeild frá og með 15. mars 2010. Nýja bráðadeildin verður í Fossvogi.
Jafnframt verður opnuð hjartamiðstöð við Hringbraut og verður hún opin frá mánudegi til föstudags. Sjúklingar sem eru til meðferðar á deildum vegna t.d. krabbameins eða nýrnabilunar og þurfa sérfræðiaðstoð vegna óstöðugs eða versnandi ástands koma á sína heimadeild í stað bráðadeildar.
Kostnaður við húsnæðisbreytingar, þjálfun starfsfólks og undirbúning, endurnýjun tækja og búnaðar og flutning er talinn verða um 230 milljónir króna. Hins vegar er áætlað að með því að sameina bráðamóttökurnar náist um 100 milljóna króna árlegur sparnaður. Sá sparnaður næst með minni launakostnaði, styttri dvalartíma sjúklinga á bráðadeild og fækkun heimsókna á bráðadeild, án þess að það komi niður á þjónustunni, að því er segir í fréttatilkynningu.