„Ég er búin að vera að vinna að þessari síðu síðan í apríl og það hefur verið alveg ótrúlega gaman. Mig langar líka með þessu að segja við þá sem eru atvinnulausir að það er allt hægt og það má ekki gefast upp,“ segir Inga Jessen, viðskiptafræðingur.
Inga missti vinnuna í október og leiddist það fljótt að sitja auðum höndum. Í leit hennar að ódýrri dægradvöl kviknaði svo hugmyndin að því að safna saman á einn stað upplýsingum um allt það sem er ókeypis í Reykjavík. Í dag hefur afraksturinn litið dagsins ljós á vefsíðunni www.freecitytravel.com.
„Þetta er það sem ég hef verið að gera í allt sumar. Ég er búin að taka allar myndirnar sjálf og skrifa allan textann. Þótt maður sé atvinnulaus er nefnilega alltaf hægt að finna sér eitthvað sniðugt að gera,“ segir Inga sem fékk aðstoð frá mági sínum við að forrita síðuna.
Fyrsta útgáfan er á ensku og ætluð erlendum ferðamönnum, en síðar meir verður hún sett upp á íslensku líka. Inga segist á endanum hafa stærra viðskiptamódel í huga, jafnvel að opna systursíður um ókeypis hluti í erlendum borgum, s.s. í Kaupmannahöfn.