„Þetta er besti völlur á landinu“

Hópurinn frá UFA og UMSE sem æfði á nýja íþróttaleikvanginum …
Hópurinn frá UFA og UMSE sem æfði á nýja íþróttaleikvanginum á Akureyri í kvöld. mbl.is/Skapti

Frjálsíþróttafólkið í Ungmannfélagi Akureyrar (UFA) og Ungmennasambandi Eyjafjarðar (UMSE) fékk að æfa í fyrsta skipti í kvöld á nýja íþróttaleikvanginum á félagssvæði Þórs á Akureyri, þar sem Landsmót UMFÍ verður sett með pompi og prakt á föstudagskvöldið. Mótið hefst á fimmtudaginn og frjálsíþróttakeppnin verður á nýja vellinum. 

„Þetta er frábær völlur; sá besti á landinu,“ sagði Unnar Vilhjálmsson,  frjálsíþróttaþjálfari hjá UFA við blaðamann Morgunblaðsins þegar hópurinn var að ljúka fyrstu æfingunni. Þessi nýja og glæsilega aðstaða er á félagssvæði íþróttafélagsins Þórs í Glerárhverfi og þar fara heimaleikir félagsins í knattspyrnu fram eftir Landsmótið.

100 ára afmælismót

Fyrsta Landsmótið UMFÍ fór fram á Akureyri fyrir 100 árum - 17. júní 1909 á Oddeyrartúni í blíðskaparveðri þar sem keppt var í glímu, stangarstökki, langstökki, hástökki, 100 m hlaupi fullorðinna, göngu, sundi og knattspyrnu. Mótið er nú haldið á Akureyri í fjórða skipti.

Landsmót eru afskaplega skemmtilegar samkomur; áhorfendum býðst þar að fylgjast með keppni í mörgum hefðbundnum íþróttagreinum en einnig ýmsum óvenjulegum, svo ekki sé meira sagt. En samkoman er ekki bara íþróttamót, jafnvel mætti kalla það risastórt ættarmót þar sem ungmennafélagsfjölskyldan kemur saman og margumtalaður andi sem við félagið er kenndur svífur yfir vötnum.

Spjótkastari keppti við tímann

Sigurður Einarsson, spjótkastarinn gamalkunni og íþróttamaður ársins 1992, hefur verið eins og grár köttur á hinum nýja íþróttaleikvangi á Þórssvæðinu undanfarna mánuði. Ekki er kappinn að kasta spjóti enda löngu hættur keppni með það áhald. Nú keppti hann við tímann.

Sigurður rekur fyrirtækið Sporttæki sem flytur inn ýmsan búnað fyrir íþróttamannvirki og allt slíkt á hinum nýja leikvangi Akureyringa er á hans ábyrgð. M.a. gerviefnið á hlaupabrautirnar, tartanið svokallaða. „Þetta er hágæðaefni frá fyrirtækinu Mondo, það sama og notað hefur verið á öllum Ólympíuleikum og heimsmeistaramótum síðan 1976,“ sagði Sigurður í samtali við blaðamann.

„Aðstaðan þarna fyrir frjálsíþróttamenn er tvímælalaust sú besta á Íslandi og völlurinn sá glæsilegasti. Innan vallar er aðstaða fyrir langstökk á fimm stöðum, stangarstökk á fjórum og þar eru tveir kúluvarpsgeirar, svo dæmi séu nefnd.“

Hlaupabrautirnar eru átta, sem aðeins á sér hliðstæðu hérlendis á þjóðarleikvanginum í Laugardal.

Hamingjuóskir

„Mér finnst ástæða til þess að óska Akureyringum til hamingju með völlinn, hann er vel hannaður og stórglæsilegur í alla staði. Mér finnst gaman að sjá að ekki er verið að byggja mannvirki sem á að sleppa fyrir horn; svæðið er greinilega byggt til framtíðar og hér ætla menn sér stóra hluti; ætla að fá hingað alþjóðleg mót sem myndi auka enn þá frábæru stemningu sem alltaf er á Akureyri yfir sumarið.“

Endanlegum frágangi við hinn nýja leikvang lýkur í dag. „Þessi keppni við tímann hefur verið krefjandi en mjög skemmtileg. Þetta hefur verið eins og keppni fyrir stórmót, sem á vel við mig og ég bý að reynslunni úr íþróttunum. Legg allt í sölurnar í 2-3 mánuði fyrir mót og þarf að toppa á réttum tíma. Það tókst!“ sagði Sigurður.

Hann þekkir vel lífið á Landsmóti UMFÍ. Keppti reyndar bara á einu sjálfur, á Selfossi 1978, enda lengi búsettur erlendis. „En ég var á nokkrum mótum sem áhorfandi og stemningin var alltaf mjög fín. Þetta eru skemmtileg mót.“

Keppni fer fram víða um bæinn en miðpunktur mótsins verður á leikvanginum nýja. Þar verður öll frjálsíþróttakeppnin og allar helstu kempur landsins verða þar á ferðinni.

Pönnukökubakstur, dráttarvélaakstur...

Á leikvanginum fer fram hið óviðjafnanlega starfshlaup þar sem keppendur hlaupa ákveðna vegalengd á vellinum og þurfa á leiðinni að leysa ýmsar þrautir. Þessi grein hefur ætíð vakið mikla athygli og vert er að geta þess að meðal keppenda nú verða Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, fyrir HSH, og Kristján Þór Júlíusson, alþingismaður og formaður Landsmótsnefndar.

Af ófhefðbundum keppnisgreinum má einnig nefna jurtagreiningu, pönnukökubakstur, dráttarvélaakstur, hestadóma, gróðursetningu og stafsetningu.

Þá er rétt að benda á að í tengslum við mótið fer fram kirkjutröppuhlaup á föstudaginn. Það er ekki keppnisgrein á Landsmótinu heldur opið öllum.

Vert er að vekja athygli á 100 ára sögusýningu Landsmótanna á Amtsbókasafninu, en hún stendur fram yfir verslunarmannahelgi. Þá verður Vésteinn Hafsteinsson með fyrirlestur í tengslum við mótið á fimmtudagskvöldið, þar sem hann ræðir um afreksþjálfun og leiðina að ólympíugullinu. Vésteinn, sem sjálfur keppti á fernum Ólympíuleikum, þjálfar nú heimsmethafann og ólympíumeistarann í kringlukasti, Eistann Gerd Kanters.

Keppni hefst á fimmtudag og lýkur um miðjan sunnudag. Formleg setningarathöfn og hátíðarsamkoma verður á föstudagskvöldið á nýja leikvanginum og hvetja mótshaldarar alla sem vettlingi geta valdið til að mæta á svæðið.

mbl.is/Skapti
mbl.is/Skapti
mbl.is/Skapti
mbl.is/Skapti
mbl.is/Skapti
mbl.is/Skapti
mbl.is/Skapti
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert