Gunnlaugur Júlíusson hlaupari er kominn upp á Holtavörðuheiði og hefur numið staðar í dag. Hann fór af stað úr Borgarnesi í morgun og hyggst hlaupa til Akureyrar; kemur þangað á föstudagskvöldið þegar setningarhátíð Landsmóts UMFÍ fer fram.
Hlaupið fer fram undir merkjum fjáröflunarátaks fyrir Grensásdeildina og Ungmennafélags Íslands. Hlaupið er jafnframt minningarhlaup um Jón H. Sigurðsson hlaupara frá Úthlíð.
Gunnlaugur hljóp upp fyrir Borgarnes í gær og í dag upp á Holtavörðuheiði. Á morgun er ætlunin að hlaupa vel austur fyrir Hvammstanga og á miðvikudag sem lengst inn í Langadal í áttina að Vatnsskarði.
Á fimmtudag ætlar Gunnlaugur að hlaupa upp á vatnaskil á Öxnadalsheiði og hlaupinu lýkur síðan á föstudagskvöldið á hinum nýja íþróttaleikvangi Akureyrar á svæði íþróttafélagsins Þórs í Glerárhverfi, við setningu 26. Landsmóts Ungmennafélags Íslands.
Forsvarsmenn Depils settu í dag staðsetningartæki á Gunnlaug hlaupara og geta því áhugasamir fylgst grannt með því á netinu hvar hann er staddur.
Slóðin til að sjá staðsetninguna beint er http://depill.is/LiveTracking.aspx?alias=umfi
Í tilkynningu frá UMFÍ er þess getið að Staðarskáli í Hrútafirði leggur sitt af mörkum til þessa átaks með því að veita hlaupara og aðstoðarmönnum hans frían mat og gistingu. Bílaleiga Akureyrar lagði bifreið til átaksins en hún fylgir hlauparanum eftir alla leið til Akureyrar.
Þeir sem vilja leggja sit af mörkum til að bæta aðbúnað á Grensásdeildinni geta lagt inn á reikning 0130-26-9981, kt: 660269-5929.