Hvalfjarðargöng hafa nú verið opnuð fyrir umferð á ný en göngin voru lokuð í rúma þrjá klukkutíma vegna umferðaslyss sem varð þar um klukkan þrjú í dag. Fólksbíll lenti framan á vörubíl með tengivagn. Ökumaður fólksbílsins slasaðist lítillega og var fluttur á slysadeild, en slapp ótrúlega vel.
Lengri tíma tók að fjarlægja vörubifreiðina úr göngunum en áætlað var og dróst því að opna göngin fyrir umferð. Ekki þótti ráðlegt að opna göngin fyrir aðra umferð, á meðan vörubíllinn var fjarlægður. Umferð var beint um Hvalfjörð meðan lokunin varði en einhverjir létu sig hafa það að bíða.
Ökumaðurinn, kona á þrítugsaldri, mun hafa sloppið með skrámur.