Minknum fækkað skipulega

mbl.is/Arnaldur

Mikil fækkun hefur orðið á mink í Eyjafirði í sérstöku veiðiátaki á vegum umhverfisráðuneytisins, sem nær til tveggja svæða. Mink hefur einnig fækkað á Snæfellsnesi í átakinu, en ekki jafn hratt.

Tilraunaverkefni um útrýmingu minks á tveimur svæðum á landinu hófst árið 2007. Sérstök umsjónarnefnd er yfir verkefninu, skipuð af umhverfisráðherra, en veiðiátakið er skipulagt og framkvæmt af Umhverfisstofnun. Svæðin sem urðu fyrir valinu voru Snæfellsnes og Eyjafjörður. Samhliða þessu var samið við Náttúrufræðistofnun Íslands um rannsóknir í tengslum við átakið, sem fól Náttúrustofu Vesturlands framkvæmd þeirra. Rannsóknirnar fólust í mati á stofnstærð minks á Snæfellsnesi fyrir átakið og krufningum og rannsóknum á minkum sem veiðast í átakinu.

Markmið átaksins er að auka verulega veiðiálag á minkastofninn á svæðunum tveim frá því sem áður var og meta hvort fýsilegt gæti talist að útrýma mink á landinu. Veiðar hefjast í mars og standa fram í nóvember ár hvert. Til veiðanna voru ráðnir nokkrir lykilveiðimenn á hvoru svæði sem skyldu ákveða lagningu gildra, skipulag veiðanna innan ramma verkefnisins í samráði við verkefnisstjóra og Umhverfisstofnun.

Við upphaf verkefnisins, árið 2007, var veðurfar mjög hagstætt til veiða. Gildruveiðar hófust af miklum þunga strax í upphafi og hundaveiði hófst í mars á Snæfellsnesi og mánuði síðar í Eyjafirði. Samtals voru veiddir 353 minkar. Í Eyjafirði veiddust 202 og þar af voru 51% kvendýr. Á Snæfellsnesi veiddust 153 og þar af voru 58% kvendýr. Meirihluti dýranna, um 71%, veiddust í gildrur en 24% voru veidd með aðstoð hunda.

Í upphafi árs 2008 var voru snjóalög gildruveiðum óhagstæð sérstaklega í Eyjafirði. Gildrur voru úti en undir snjó og voru margar frosnar fastar og sumar gildrurnar voru ekki komnar undan snjó fyrr en í byrjun maí. Veiðiálagið var þó svipað og árið á undan þegar á heildina er litið. Samtals veiddust 192 minkar. Í Eyjafirði veiddust 56 minkar og þar af voru 58% kvendýr. 136 minkar veiddust á Snæfellsnesi og af þeim 52% kvendýr. Hlutfall dýra sem veiddist í gildrur þetta árið var um 64%.

Nú er hafið þriðja ár verkefnisins. Snjóalög voru, ef eitthvað var, enn óhagstæðari veiðum síðastliðinn vetur á Norðurlandi en fyrri hluta árs í fyrra. Gildrur komu því enn seinna undan snjó en hin árin. Það sem af er árinu 2009 hafa 30 minkar veiðst á Snæfellsnesi þar af 15 í gildrur og 15 með hjálp hunda. Í Eyjafirði hafa veiðst 9 minkar, allir í gildrur. Þróunin virðist vera sú sama í Eyjafirðinum núna þetta árið eins og í fyrra þ.e. að mjög fáir minkar veiðast og þeir veiðast frekar á jaðri svæðisins. Það sama virðist einnig vera uppi á teningnum á Snæfellsnesi það sem af er, þ.e. færri minkar veiðast og einnig eru menn sammála að miklu minna hafi orðið vart við mink á Snæfellsnesi í vetur.

Umhverfisstofnun býst við að veiðin í ár verði enn minni en 2007 og 2008. Því megi búast við minni áhuga veiðimannanna. Umhverfisstofnun telur nauðsynlegt að reyna að bregðast við til að ekki dragi úr veiðiálagi. Ákveðið hefur verið að bæta veiðimönnum upp tekjusamdrátt vegna minni veiða með því að greiða óbreytta verðlaunaupphæð miðað
við fyrsta árið.

Vefur Umhverfisstofnunar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert