Rekstur Þörungaverksmiðjunnar á Reykhólum hefur gengið vel að undanförnu. Hagnaður varð af rekstrinum í fyrra og nú ætlar verksmiðjan að endurnýja skipakost sinn, en Karlsey, skip hennar, er komin til ára sinna, smíðuð 1967. Þá eru uppi hugmyndir um stækkun verksmiðjunnar.
Atli Georg Árnason framkvæmdastjóri segir að eftirspurn eftir framleiðslu verksmiðjunnar hafi verið góð. Þá hafi staða krónunnar verið hagstæð fyrir útflutningsgreinarnar, en 95% af framleiðslu verksmiðjunnar eru seld til útlanda.
Stór hluta íbúa Reykhóla starfar við verksmiðjuna. Afkoma hennar skiptir íbúana því miklu máli enda er gott hljóð í þeim um þessar mundir. Ef áform um stækkun verksmiðjunnar ganga eftir, gæti komið til þess að íbúðarhúsnæði skorti að Reykhólum.