Grunur leikur á að fiður af alifuglum, gæsum og öndum sé selt sem íslenskur æðardúnn í Japan. Íslenskur æðardúnn þykir einstök vara og er mikils metinn í Japan. Í fyrra voru flutt út héðan 2,6 tonn af æðardúni, mest til Japans, en á sama ári voru seld um 20 tonn af dún, sem kynntur var sem íslenskur æðardúnn að mestu eða öllu leyti. Sendiráð Íslands í Japan hefur verið beðið að rannsaka hvort þessar grunsemdir um fölsun á Japansmarkaði eigi við rök að styðjast.
Guðbjörg Helga Jóhannesdóttir, hlunnindaráðgjafi hjá Bændasamtökunum, segir að hér sé um grafalvarlegt mál að ræða. Hún segir að nýlega hafi komið hingað japanskur heildsali, ásamt austurrískum sængurframleiðanda, sem selur vörur á Japansmarkað, til að leita lausna við þessum vanda. Þeir hafi greint frá því að þegar sæng sem átti að innihalda íslenskan æðardún hafi verið opnuð hafi hvítt fiður komið í ljós.
„Við óttumst að talsvert sé um þetta og meðan þessi svikna vara seljist ágætlega vegna lægra verðs hreyfist dúnsængur með íslenskum æðardún vart í hillum verslana í Japan,“ segir Guðbjörg.
„Við teljum okkur eiga yfir 70% af æðardún á heimsmarkaði og það stenst engan veginn að meðan við flytjum út um þrjú tonn á ári að meðaltali, séu á sama tíma seld hátt í 20 tonn af vöru sem kynnt er sem íslenskur æðardúnn að mestu eða öllu leyti. Sexföldun á magni æðardúns á leið á markað stenst engan veginn,“ segir Guðbjörg.