Lilja og Baltasar fá ekki landspildu

Hofstorfan slf., samlagsfélag Lilju Pálmadóttur og Baltasar Kormáks, tapaði í gær dómsmáli sem höfðað var vegna deilu um landspildu sem þau töldu að tilheyrði jörð þeirra, Hofi í Skagafirði. Spildan sem þrætt var um, var seld undan landi Hofs árið 1922 en vegna mistaka var landspildunni ekki þinglýst sem séreign fyrr en árið 2008.

Deilan um landspilduna hefur staðið svo áratugum skiptir og studdist dómurinn við gögn allt aftur til ársins 1882.

Lilja Pálmadóttir og Baltasar Kormákur keyptu jörðina Hof í Skagafirði í gegnum samlagsfélag sitt Hofstorfan, sumarið 2003. Þá töldu þau landspilduna sem deilt var um, vera í sinni eigu.

Lilja Pálmadóttir bar fyrir dómi að við kaupin hafi seljendur Hofs gengið með henni á landamerki jarðarinnar og þá hafi ekki komið fram nein óvissa um merkin.

Skömmu síðar segist Lilja hafa hitt eiganda jarðarinnar Þrastarstaða, og þá hafi fyrst verið nefndar einhverjar deilur um landamerki. Síðar segir Lilja að þegar hún hafi verið í heimsókn á Þrastarstöðum, hafi henni verið sýnt afsal fyrir spildunni sem þrætt var um. Eigendur Hofs héldu því fram að sala landspildunnar árið 1922 hefði gengið til baka og spildan félli því undir Hof.

Dómari taldi það ósannað.

Dómur héraðsdóms

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka