Frumvarp um Bankasýslu ríkisins úr viðskiptanefnd

Bankasýsla ríkisins mun heyr aundir Steingrím J. Sigfússon, fjármálaráðherra. Stofnuninni …
Bankasýsla ríkisins mun heyr aundir Steingrím J. Sigfússon, fjármálaráðherra. Stofnuninni verður falið að fara með eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum meðan á uppbyggingu og endurreisn fjármálakerfisins stendur. Ómar Óskarsson

Meirihluti viðskiptanefndar Alþingis leggur til að hver sem er geti boðið sig fram til setu í bankaráðum og stjórnum fyrirtækja fyrir hönd ríkisins, með því að senda sérstakri valnefnd ferilskrá sína. Þetta er ein breytingartillagna sem viðskiptanefnd gerir við frumvarp til laga um Bankasýslu ríkisins. Nefndin afgreiddi frumvarpið til annarrar umræðu í kvöld og er málið á dagskrá Alþingis í fyrramálið.

Með frumvarpinu er lagt til að sett verði á fót sérstök ríkisstofnun sem beri heitið Bankasýsla ríkisins og heyrir hún undir fjármálaráðherra. Stofnuninni verður falið að fara með eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum en ríkissjóður er á ný orðinn eigandi að stærstum hluta íslenska fjármálakerfisins í kjölfar bankahrunsins haustið 2008.

Upphaflega var lagt til að stofnunin starfaði tímabundið í fimm ár, stjórn yrði skipuð af fjármálaráðherra til fimm ára og stjórnin réði forstjóra til jafnlangs tíma. Meirihluti viðskiptanefndar leggur til að tímamarkið verði fellt brott og að ráðherra skipi stjórn Bankasýslu ríkisins ótímabundið og stjórnin geri ótímabundinn ráðningarsamning við forstjóra en uppsagnarfrestur verði gagnkvæmur.

Upphaflega frumvarpið gerir ráð fyrir að þrír stjórnarmenn fari fyrir stofnuninni en meirihluti viðskiptanefndar leggur til að einn varamaður verði skipaður í stjórnina.

Í frumvarpinu eru ákvæði um hæfisskilyrði stjórnarmanna og forstjóra þar sem segir að þeir megi ekki á síðustu fimm árum hafa verið úrskurðaðir gjaldþrota eða hlotið dóm í tengslum við atvinnurekstur samkvæmt almennum hegningarlögum, samkeppnislögum, lögum um fjármálafyrirtæki, lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög, lögum um bókhald, lögum um ársreikninga eða lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. Fyrir viðskiptanefnd var þeim sjónarmiðum hreyft að upptalningin væri ekki nægilega tæmandi og leggur meirihluti nefndarinnar því til að við bætist að stjórnarmenn og forstjóri megi ekki hafa hlotið dóm fyrir brot á þeim sérlögum sem gilda um aðila sem lúta opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi.

Gert er ráð fyrir að stjórn Bankasýslunnar skipi þriggja manna valnefnd sem hafi það hlutverk að tilnefna aðila fyrir hönd ríkisins sem hafa rétt til setu í bankaráðum eða stjórnum fjármálafyrirtækja til samræmis við hlutafjáreign ríkisins. Meirihlutinn telur brýnt að valnefndin tryggi að hlutföll kynjanna í bankaráðum og stjórnum fyrirtækja og félaga verði sem jöfnust og leggur til breytingu í þá veru. Meiri hlutinn áréttar að sama sjónarmið um sem jafnastan hlut karla og kvenna eigi við um þriggja manna stjórn Bankasýslunnar sem ráðherra skipar.

Þá er í frumvarpinu mælt fyrir um almenna heimild til að bjóða sig fram til setu í bankaráðum og stjórnum fyrirtækja fyrir hönd ríkisins. Meirihlutinn leggur til þá breytingu að hver sem er geti boðið sig fram til setu í bankaráðum og stjórnum fyrirtækja með því að senda nefndinni ferilskrá sína. Telur meirihlutinn í því sambandi nauðsynlegt að taka fram að til þess að ákvæði þetta komi til með að virka í framkvæmd sé nauðsynlegt að auglýsa eða kynna með einhverjum hætti að verið sé að skipa í stjórnir umræddra fyrirtækja og félaga sem ríkið fer með eignarhlut í.

Samkvæmt tillögum meirihluta viðskiptanefndar er gert ráð fyrir að Bankasýslan gefi ráðherra skýrslu um starfsemi sína í fyrsta sinn fyrir 1. nóvember nk., m.a. um hvernig til hefur tekist með stofnun hennar og framkvæmd þeirra verkefna sem undir hana heyra. Ráðherra yrði svo veitt slík skýrsla að nýju fyrir 1. júní 2010 og þinginu í kjölfarið og svo árlega eftir það.

Gert er ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs hækki um 70 til 80 milljónir króna árlega meðan stofnunin er starfrækt en auk forstjóra munu þrír til fimm starfsmenn verða ráðnir til Bankasýslunnar. Ekki var gert ráð fyrir þessum útgjöldum í fjárlögum ársins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert