Fundi utanríkismálanefndar um ESB-mál frestað

Krafa Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur, þingmanns VG um frekari upplýsingar um …
Krafa Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur, þingmanns VG um frekari upplýsingar um kostnað aðildarviðræðna við ESB varð til þess að fundi utanríkismálanefndar var festað.

Fundi utanríkismálanefndar Alþingis var í kvöld frestað að kröfu Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur, þingmanns VG. Til stóð að afgreiða út úr nefndinni stjórnartillögu um aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

Utanríkismálanefnd Alþingis þingaði í morgun um ríkisábyrgð vegna Icesave-samnings við Hollendinga og Breta. Nýr fundur hófst svo klukkan 18 í kvöld þar sem stjórnartillaga um aðildarumsókn að Evrópusambandinu var til umræðu. Vonir voru bundnar við að tækist að afgreiða tillöguna út úr nefndinni í kvöld en Guðfríður Lilja Grétarsdóttir óskaði eftir frekari upplýsingum um kostnað aðildarviðræðna. Hrifning þingmanna Samfylkingar í viðskiptanefnd var takmörkuð yfir kröfu Guðfríðar Lilju, eftir því sem fram kom í seinni fréttum Sjónvarpsins.

Nýr fundur hefur verið boðaður í utanríkismálanefnd klukkan hálfníu í fyrramálið þar sem Icesave og ESB aðildarumsókn eru á dagskrá. Hvorugt málið er hins vegar á dagskrá þingfundar sem hefst klukkan 10:30, enda óvíst hvenær umfjöllun nefnda um málin lýkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert