Fyrstu hjólreiðakapparnir sem taka þátt í lengstu hjólreiðakeppni ársins eru komnir norður fyrir Borgarnes. Keppnin hófst við Olísstöðina í Mosfellsbæ klukkan 7.00 í morgun. Búist er við fyrstu keppendum til Akureyrar upp úr kl. 21.00 í kvöld eftir 415 km hjólreiðar.
Keppnin er haldin til að minnast þess að eitthundrað ár eru liðin frá því að fyrsta Landsmót UMFÍ var haldið á Akureyri. 26. Landsmót UMFÍ hefst á morgun á Akureyri og stendur til 12. júlí.
Liðsmenn liða í keppninni ráða því hvort þeir hjóla saman eða skiptast á um að hjóla á leiðinni. Engin flokkaskipting er og lið geta verið samsett hvernig sem er með tilliti til aldurs og kyns. Keppt er á hefðbundnum götuhjólum og hvert lið má hafa fjögur hjól meðferðis auk varahluta.