Talsmaður hollenskra innistæðueigenda hvetur þingmenn til að fella frumvarp um ríkisábyrgð vegna Icesave-samninga við Breta og Hollendinga.
Í bréfi sem Joost de Groot, talsmaður hollenskra innistæðueigenda sendi öllum þingmönnum síðdegis í gær, segir að fella verði frumvarpið og semja að nýju.
Hollendingarnir segja að Íslendingar muni aldrei ráða við það lán sem samkomulagið við Breta og Hollendinga um Icesave felur í sér. Þá sé aðeins tekið á hluta vandans í samkomulaginu og Íslendingar muni standa í þrefi um ókomin ár vegna þess sem út af stendur og ef til vill aldrei ná sér á strik vegna þess og þeirra kjara sem samið var um í Icesave-samkomulaginu.
Hollendingarnir segja í bréfinu til íslensku þingmannanna að Evrópski seðlabankinn og Englandsbanki verði að koma að nýrri samningsgerð, enda beri þeir sína ábyrgð á málinu.
Hollendingarnir segja að í stað láns upp á 3,6 milljarða evra á 5,5% vöxtum verði að semja við alla kröfuhafa. Nýtt lán gæti hljóðað upp á 7,3 milljarða evra en vaxtastigið verði að endurskoða. Vextir eigi að vera 1%.
Með slíkum samningi komist Íslendingar hjá málaferlum og geti einbeitt sér að endurreisn í stað þess að takast á við aðrar þjóðir í dómsölum. Þá fái Íslendingar full yfirráð yfir eignum Landsbankans og geti hámarkað verðmæti eignanna. Síðast en ekki síst telja Hollendingarnir að kostnaður Íslendinga af slíku láni verði minni þegar upp verður staðið, en af núgildandi samkomulagi, þrátt fyrir tvöfalt hærri lánsfjárhæð.
Í bréfinu til íslensku þingmannanna segir að verði frumvarp um ríkisábyrgð vegna Icesave ekki fellt á Alþingi og sest að samningaborði að nýju, sé fyrirsjáanleg hrina málaferla gegn Íslendingum. Ekki aðeins verði Fjármálaeftirlitið íslenska dregið til ábyrgðar, heldur verði Hollendingar að fara með málið gegn Íslandi til EFTA. Ekki verði við það unað að hollenskir sparifjáreigendur sem áttu fé í gamla Landsbankanum sæti öðrum kjörum en þeir íslensku.
Hollendingarnir telja víst að aðrir innistæðueigendur í sömu sporum leiti líka réttar síns.
Því sé nauðsynlegt að hefja nýjar samningaviðræður með þátttöku æðstu ráðamanna en ekki embættismanna, líkt og gert var þegar gengið var frá samkomulagi við Breta og Hollendinga.
Þannig fáist mun betri niðurstaða fyrir íslensku þjóðina, auk þess sem Íslendingar sýni svo ekki verður um villst, að þeir axli ábyrgð.