Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar telja að ábyrgðargjald sem Landsvirkjun greiðir Reykjavíkurborg vegna ábyrgða borgarinnar á lánum Landsvirkjunar sé óeðlilega lágt.
Reykjavíkurborg átti til 1. janúar 2007, 44,525% hlut í Landsvirkjun en þá keypti ríkið hlutinn. Samkvæmt sölusamningnum ber Reykjavíkurborg þó enn ábyrgð á 44,525% skulda Landsvirkjunar sem stofnað var til fyrir sölu hlutarins, en meginþorri skulda Landsvirkjunar er frá þeim tíma.
Í sölusamningnum segir að Reykjavíkurborg beri ábyrgð á skuldbindingum Landsvirkjunar til ársins 2012 en þá muni kaupandinn, eða íslenska ríkið, tryggja skaðleysi ábyrgða borgarinnar. Á sama tíma fellur greiðsla ábyrgðargjalds til Reykjavíkurborgar niður.
Sigrún Elsa Smáradóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar segir að af samlestri ársreikninga Reykjavíkurborgar og Landsvirkjunar sé erfitt að komast að annarri niðurstöðu en að hlutur Reykjavíkurborgar í ábyrgðargjaldi fyrirtækisins sé of lítill. Jafnframt kunni að vera rök fyrir því að ábyrgðargjaldið sé óeðlilega lágt.
Samkvæmt ársreikningi Reykjavíkurborgar 2008 fékk Reykjavíkurborg greiddar 208 milljónir króna í ábyrgðargjald vegna ábyrgða borgarinnar á lánum Landsvirkjunar.
Samkvæmt ársreikningi Landsvirkjunar greiddi fyrirtækið ábyrgðargjald sem nemur 6,97 milljónum dollara. Það samsvarar 845 milljónum króna miðað við gengi 121,2 um áramótin.
Sigrún Elsa segir að þannig virðist hlutur Reykjavíkurborgar í ábyrgðargjaldsgreiðslunum vera innan við fjórðungur af greiddu ábyrgðargjaldi meðan hlutfallsleg ábyrgð borgarinnar er mun meiri.
Fulltrúar Samfylkingarinnar lögðu fram fyrirspurnir í borgarráði í dag, til viðbótar fyrri fyrirspurnum, vegna ábyrgða Reykjavíkurborgar fyrir Landsvirkjun.
Spurt er hvernig það ábyrgðargjald sem borgin fær greitt komi heim og saman við ábyrgðir borgarinnar. Ennfremur hvort það ábyrgðargjald sem Landsvirkjunar hefur greitt Reykjavíkurborg á undangengnum árum hafi endurspeglað ábyrgðir borgarinnar á skuldum Landsvirkjunar. Loks spyrja borgarfulltrúar Samfylkingarinnar hver hafi setið ársfundi og eftir atvikum aðra fundi Landsvirkjunar til að gæta hagsmuna Reykjavíkurborgar eftir sölu á hlut borgarinnar í fyrirtækinu.