Dýrt fyrir ríkið að selja banka

hag / Haraldur Guðjónsson

Íslensku ríkisbankarnir gömlu, Landsbankinn og Búnaðarbankinn, fjármögnuðu sjálfir að stórum hluta kaup Samsonar og S-hópsins á Landsbankanum og Búnaðarbankanum. Samson, félag Björgólfs Guðmundssonar og Björgólfs Thors Björgólfssonar, og um tíma Magnúsar Þorsteinssonar, fékk lán frá gamla Búnaðarbankanum upp á 3,4 milljarða króna, sem nam um 30 prósentum af kaupverði. Þetta lán er nú hjá Nýja Kaupþingi, skv. upplýsingum frá Helga Birgissyni hrl. skiptastjóra Samson.

Egla hf. fékk lán frá Landsbankanum fyrir 35 prósentum af 11,4 milljarða kaupum S-hópsins á Búnaðarbankanum. Síðar eignaðist Egla 71,2 prósent af hluta S-hópsins og varð síðar meðal stærstu hluthafa Kaupþings. Egla greiddi lánin upp að fullu um mitt ár 2007 þegar félagið var endurfjármagnað. Hjörleifur Jakobsson, framkvæmdastjóri Eglu, staðfesti það í samtali við Morgunblaðið í gær.

Draga dilk á eftir sér

Samson skuldar því mörgum öðrum en Nýja Kaupþingi stórfé og ekki er ólíklegt að aðrir kröfuhafar verði ósáttir, ef sérstaklega verður séð til þess að Nýja Kaupþing fái miklar endurheimtur en aðrir kröfuhafar ekki. Ekki mun duga til þótt þeir feðgar hafi verið persónulega ábyrgir fyrir láni Nýja Kaupþings, þar sem um persónulegar ábyrgðir, sérstaklega Björgólfs Guðmundssonar, er að ræða á fleiri skuldum í þrotabúi Samsonar.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hefur m.a. borist formlegt erindi frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins til skiptastjóra Samsonar, þar sem forsvarsmenn sjóðsins telja að Björgólfur G. hafi gengist í persónulega ábyrgð fyrir skuldum félagsins við sjóðinn. Björgólfur G. hefur sagt að skuldir sem hann sé í ábyrgðum fyrir séu um 58 milljarðar en upp í þá eigi að vera hægt að fá um 12 milljarða.

Meðal stærstu kröfuhafa í þrotabú Samsonar eru skuldabréfaeigendur. Samson skuldar þeim 24,3 milljarða króna. Þar er stærstur Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR). Skuld við hann er um tveir milljarðar en Lífeyrissjóður verzlunarmanna kemur næstur með um 1,3 milljarða.

Félagið skuldar öðrum lífeyrissjóðum, s.s. Gildi, Lífeyrissjóði verkfræðinga, Lífeyrissjóði Vestmannaeyja, Festi lífeyrissjóði, Sameinaða lífeyrissjóðnum, Stapa lífeyrissjóði, Almenna lífeyrissjóðnum og Lífeyrissjóði bænda hátt í tíu milljarða.

Aðrir skuldabréfaeigendur eru einstaklingar og smærri fjármálafyrirtæki. Meðal annars var fjárfest í skuldabréfum félagsins af peningamarkaðssjóðum og sjóðum sem Landsbankinn stýrði frá Lúxemborg og ávöxtuðu meðal annars fé erlendra einstaklinga í Frakklandi og á Spáni, eins og greint hefur verið frá í Morgunblaðinu. Samson á einnig innstæður í bönkum hér á landi og erlendis. Þar á meðal eru 2,3 milljarðar á reikningum í Landsbankanum.

Fulltrúar Commerzbank, fyrir hönd fleiri erlendra lánveitenda Samsonar, hafa krafist þess í bréfi til skiptastjóra Samsonar, Helga Birgissonar hrl., að 600 milljónir sem eru á reikningi Landsbankans hér á landi verði greiddar til kröfuhafanna. Er það gert á þeim grunni að handveð hafi verið í peningunum sem ekki hafi átt að renna til þrotabúsins heldur beint til lánveitendanna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert