Impregilo greiði 56 milljónir í bætur

Kárahnjúkar
Kárahnjúkar mbl.is/ÞÖK

Ítalska verktakafyrirtækið Impregilo hefur verið dæmt til að greiða erlendum starfsmanni rúmar 56 milljónir króna í skaðabætur. Maðurinn lamaðist í vinnuslysi við Kárahnjúka.

Maðurinn, sem er kínverskur, var við vinnu í jarðgöngum við Kárahnjúkavirkjun í desember 2006. Steypa sem samkvæmt lögregluskýrslu vó 80 til 100 kíló, hrundi úr lofti gangnanna og lenti á baki mannsins. Fallhæð steypunnar var um það bil 7,2 metrar. Maðurinn féll á brautarteina á gangnagólfinu og lenti með andlitið ofan í vatni, en eftir göngunum rann straumvatn. Samstarfsmenn mannsins drógu hann upp úr vatninu og báru hann á nærliggjandi járnbrautarvagn. Hann var fluttur út úr göngunum og með sjúkrabifreið á Egilsstaði og þaðan með sjúkraflugi til Reykjavíkur.

Maðurinn skaddaðist alvarlega á mænu í slysinu og lamaðist frá brjósti. Niðurstaða dómskvaddra matsmanna er að varanleg örorka mannsins sé 100%.

Í niðurstöðu héraðsdóms segir að vinnustaður mannsins hafi verið hættulegur. Ennfremur segir að það þyki vera nægilega fram komið að verkstjórn var óforsvaranleg við þær aðstæður sem voru í göngunum þegar slysið varð, óforsvaranlegt væri að maðurinn hafi verið einn að vinnu á stað sem ekki var búið að ganga úr skugga um að væri öruggur.

Atvik að slysinu þóttu ekki fyllilega upplýst og taldi dómari að stefndi, Impregilo, yrði að bera hallann af því. ekki væru efni efni til að fella sök á slysinu að neinu leyti á manninn sem fyrir því varð.

Héraðsdómur dæmdi Impregilo til að greiða manninum tæplega 56,5 milljónir króna fyrir varanlega örorku, þjáningar og varanlegan miska. Að auki er Impregilo gert að greiða rúmar fjórar milljónir króna í málskostnað í ríkissjóð.

Dómur héraðsdóms

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert