Í nótt var kveikt í útilistaverkinu Guttormi í Laugardal. Að sögn varðstjóra slökkviliðsins urðu talsverðar skemmdir á útilistaverkinu. Skólabörn voru meðal þeirra sem gerðu útilistaverkið og var það afhjúpað í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum við hátíðlega athöfn 5. júní síðastliðinn.
Verkið er fyrsta samfélagslistaverkið í borginni og var unnið af íbúum í Laugardalshverfi, en Reykjavíkurborg styrkti verkefnið með framlagi úr forvarna- og framfarasjóði Reykjavíkurborgar.
Stærstan þátt í listaverkinu áttu 23 nemendur úr hverfisskólunum þremur Voga-, Langholts- og Laugalækjarskóla. Krakkarnir nutu leiðsagnar myndlistarkvennanna Ólafar Nordal og Aðalheiðar S. Eysteinsdóttur við útfærsluna á Guttormi og Kristín Þorleifsdóttir formaður Íbúasamtaka Laugardals stýrði framkvæmdinni. Unnu krakkarnir í tvær vikur við að þróa og skapa hinn nýja Guttorm sem framvegis verður tákn Laugardalshverfis.