Sá óvanalegi atburður gerðist í Ólafsvíkurhöfn í dag að stórvaða af makríl gekk inn í höfnina, og telja menn að makrílinn hafi verið að elta sílis torfu.
Bæjarbúar voru fljótir að taka við sér og þustu niður að höfn vopnaðir veiðistöngum og mokveiddu makrílnum upp. Margir veiðimenn náðu tugum kílóa af vænum makríl eins og þessir ungu veiðimenn sem stilltu sér ánægð upp með aflann sinn.
Trillusjómenn hafa verið að fá makríl á handfærin að undanförnu og einnig hafa sjómenn séð stórar torfur af smásíld á Breiðafirði. Þeir segja að óvenjulega mikið líf sé í sjónum og nóg æti.
Þess ber þó að geta að sjávarútvegsráðherra hefur stöðvað makrílveiðar íslenskra skipa frá og með gærdeginum. Gripið var til þessara ráðstafana þar sem afar hratt hefur gengið á útgefna hámarksaflaviðmiðun í makríl á síðustu dögum en það er 112 þúsund lestir.