Óskar eftir samráði um sparnaðaraðgerðir

Vilhjálmur Birgisson, formaður VLFA
Vilhjálmur Birgisson, formaður VLFA

Verkalýðsfélag Akraness, VLFA, vill að skipaður verði vinnuhópur vegna þeirra sparnaðaraðgerða sem bæjarráð samþykkti á fundi sínum í síðustu viku. Formlegt erindi þessa efnis var sent bæjarráði og bæjarstjórn Akraness í dag. Formaður VLFA segir að við blasi gríðarleg kjaraskerðing hjá starfsmönnum.

Á fundi bæjarráðs sl. fimmtudag voru samþykktar margvíslegar sparnaðarleiðir fyrir bæjarsjóð. Þar á meðal eru verulegar breytingar á vinnutilhögun starfsmanna íþróttamannvirkja og skólaliða sem að mati formanns VLFA munu hafa umtalsverð áhrif á launakjör þessara hópa.

Í fundargerð bæjarráðs kemur m.a. fram að frá 1. október nk. verði breyting á opnunartíma íþróttamiðstöðvarinnar á Jaðarsbökkum, íþróttahússins við Vesturgötu og Bjarnalaugar. Opnunartími verði styttur um eina klukkustund virka daga og tvær klukkustundir laugardaga og sunnudaga. Lokað verði alla stórhátíðardaga og sérstaka frídaga.

Vilhjálmur Birgisson, formaður VLFA sagði á dögunum að hann íhugaði sterklega að skrifa ekki undir kjarasamning við launanefnd sveitarfélaga fyrr en ljóst væri hvaða áhrif breytingar á vinnutilhögun starfsmanna íþróttamannvirkja og skólaliða Akraneskaupstaðar hafa á launakjör þessara hópa. Ekki komi til greina að hrófla við launum starfsmanna sem hafa undir 300 þúsund krónum á mánuði.

„Samkvæmt þeim tillögum sem nú liggja fyrir þá blasir við gríðarleg skerðing hjá starfsmönnum íþróttamannvirkja og skólaliðum og ljóst að það ríkir töluverð gremja á meðal starfsmanna, en starfsmenn munu lækka samkvæmt þessum tillögum frá rúmum 10% upp í tæp 15%. Sem dæmi þá er einstaklingur sem er með 280.000 í mánaðarlaun skertur um rúmar 30.000 kr. á mánuði,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður VLFA.

Hann segir að skerðing á launum starfsmanna sem ekki ná 300 þúsund krónum á mánuði sé algjörlega ólíðandi og óviðunandi.

Vilhjálmur sendi í dag bæjarráði og bæjarstjórn Akraness bréf þar sem óskað er eftir því að skipaður verði vinnuhópur vegna sparnaðaraðgerðanna. Í þessum vinnuhópi auk bæjaryfirvalda yrðu fulltrúar þeirra stéttarfélaga sem eiga aðild að kjarasamningum við Akraneskaupstað auk trúnaðarmanna.

„Jafnframt kallar VLFA eftir upplýsingum um hvað aðrir hópar innan bæjarins þurfa að leggja af mörkum í þeim sparnaðaraðgerðum sem nú liggja fyrir og nægir að nefna þar forstöðumenn, kennara, starfsmenn í stjórnunarstöðum og æðstu stjórnendur bæjarins,“ segi Vilhjálmur.

Hann segir grundvallaratriði að víðtæk sátt ríki um þær sparnaðaraðgerðir sem framundan eru og mjög mikilvægt að slegin verði skjaldborg um þá starfsmenn Akraneskaupstaðar sem hafa hvað lægstar tekjurnar.

Heimasíða VLFA

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert