Guðfríður Lilja skrifar undir með fyrirvara

„Við viljum hnykkja á því að við undirbúning og skipulag aðildarviðræðna þá skuli fylgja þeim meginsjónarmiðum og vegvísi sem nefndarálit meirihluta utanríkismálanefndar rekur í ítarlegu máli,“ segir Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis.

Nefndin afgreiddi í morgun til annarrar umræðu í þinginu, tillögu um aðildarumsókn að ESB. Fulltrúar stjórnarflokkanna skrifa undir álit meirihluta nefndarinnar en Guðfríður Lilja Grétarsdóttir skrifar undir með fyrirvara.

Árni Þór Sigurðsson segir að með breytingu meirihlutans á tillögugreininni sjálfri, sé mjög hnykkt á meginhagsmunum Íslands og þeir útskýrðir. Það eigi við um sjávarauðlindir, landbúnað og fleira. Í nefndarálitinu sé ítarlega gerð grein fyrir því hvaða atriði það eru sem hafa þurfi að leiðarljósi.

„Breytingin á tillögugreininni sjálfri felst í því að við í raun setjum ríkisstjórninni það fyrir að hún skuli í aðildarviðræðum, fylgja þeim meginmarkmiðum sem sett eru fram í áliti meirihlutans,“ segir Árni Þór.

Áliti meirihluta utanríkismálanefndar og breytingartillögum verður dreift á Alþingi í dag og kemur málið væntanlega til annarrar umræðu á Alþingi á morgun.

Þingfundi sem hefjast átti klukkan 10:30 var frestað til klukkan 12 vegna nefndarstarfa.

Árni Þór Sigurðsson
Árni Þór Sigurðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert