Slitastjórn Spron heldur fast við sína túlkun

„Slitastjórn Spron stendur fast á sinni túlkun, þrátt fyrir að þeir séu aleinir um hana,“ segir Álfheiður Ingadóttir, formaður viðskiptanefndar Alþingis. Nefndin fékk slitastjórnina á sinn fund í dag vegna deilna um heimildir til að greiða fyrrverandi starfsmönnum laun úr þrotabúi Spron.

Fyrrverandi starfsmönnum SPRON var um mánaðamótin tilkynnt að þeir fengju ekki lengur greidd laun í uppsagnarfresti. Rúmlega 100 starfsmenn fengu því engin laun 1. júlí. Ákvörðun um að stöðva launagreiðslur var tekin af slitastjórn Spron 30. júní en stjórnin taldi sig ekki hafa heimild til að greiða laun í uppsagnarfresti úr þrotabúi Spron.

Að sögn formanns viðskiptanefndar Alþingis hefur komið fram að nægir fjármunir eru til í þrotabúi Spron til að greiða forgangskröfur, þ.m.t. launakröfur starfsmanna og jafnvel eitthvað upp í almennar kröfur. Þá hafi ekki komið fram upplýsingar um annað en að launakröfur fyrrverandi starfsmanna séu réttmætar.

Slitastjórnin telur lagaheimildir hins vegar skorta til að greiða megi launin.

Lögspekingar sem skrifuðu lögin um fjármálafyrritæki, eru á öndverðum meiði og telja óþarft að breyta lögunum. Slitastjórn sé heimilt að gildandi lögum að greiða fyrrverandi starfsmönnum Spron laun.

Viðskiptanefnd Alþingis leitaði álits réttarfarsnefndar í málinu en nefndin gætir m.a. lagasamræmis.

„Það er ævinlega leitað til réttarfarsnefndar ef skrifa þarf nýjar greinar inn í gildandi lög. Það gerðum við en fengum það svar að óþarft væri að breyta lögunum,“ segir formaður viðskiptanefndar.

Fyrrverandi starfsmenn Spron eru því enn í sömu stöðu, launalausir, á meðan þrætt er um lagatúlkun.

„Við hvöttum slitastjórnina til að leita lausna og þeir hljóta að finna eitthvað út úr því,“ segir Álfheiður Ingadóttir, formaður viðskiptanefndar Alþingis.

Álfheiður Ingadóttir, formaður viðskiptanefndar Alþingis.
Álfheiður Ingadóttir, formaður viðskiptanefndar Alþingis.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka