Utanríkismálanefnd margklofin um ESB-ályktunina

FRANCOIS LENOIR

Fundir utanríkismálanefndar Alþingis um ESB-málið riðluðust í gærkvöldi þegar ekki náðist samstaða um málið og útbýtingu skjala á Alþingi var aflýst. Óvíst er hvenær málið kemur út úr nefndinni. Flestir nefndarmenn vildu sjá ákvæði um tvöfalda atkvæðagreiðslu inni í þingsályktuninni og hleypti það fyrirætlunum Samfylkingarinnar í uppnám.

„Ég hef alltaf haft fyrirvara á því hvort rétt sé að ganga til viðræðna án skýrs þjóðarvilja, það er ekkert nýtt af minni hálfu,“ segir Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, fulltrúi VG í utanríkismálanefnd. Fundurinn hófst þannig að minnihlutinn setti ýmsa fyrirvara. Þá gerði Guðfríður Lilja athugasemdir og taldi að margt mætti betur fara áður en hún gæti skrifað undir sameiginlegt álit. Hún myndi fara eftir eigin sannfæringu. Lagði hún meðal annars til öflugri aðkomu Alþingis að umsókninni og spurði einnig um kostnaðinn af henni.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins höfðu fulltrúar Samfylkingarinnar reiknað með að málið yrði afgreitt og bjuggust ekki við andstöðu úr þessari átt. Þeir gerðu hlé á fundi þegar þessi staða kom upp og aflýstu honum svo síðar um kvöldið. Mikill núningur er því milli stjórnarliða í nefndinni.

„Þegar búið var að vinna þessi ítarlegu drög að nefndaráliti þótti mér skrýtið að upplifa að það virtist óviðunandi af hálfu nokkurra nefndarmanna að ræða þau,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins og nefndarmaður.

Nefndin ráðgerir fund klukkan hálfníu fyrir hádegi en ólíklegt þykir að álit verði klárað fyrir þingfund tveimur tímum síðar, enda Icesave-málið einnig á dagskrá. Lítil samstaða er í nefndinni og segja viðmælendur að nefndarálitin verði „að minnsta kosti tvö“.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert