Fréttaskýring: Börn með drápstæki á milli handanna?

Lögum samkvæmt teljast 17 ára unglingar vera börn. Þeir eru ekki lögráða en samt sem áður eru þeir virkir þátttakendur í umferðinni þar sem augnabliks athugunarleysi eða rangt mat á aðstæðum getur skilið á milli feigs og ófeigs.

Rannsóknarnefnd umferðarslysa hefur lagt til að við breytingu umferðarlaga verði bílprófsaldurinn hækkaður til samræmis við sjálfræðisaldurinn, upp í 18 ára. Það er m.a. rökstutt með þeirri staðreynd að þótt slysum ungra ökumanna hafi fækkað, séu 17 ára ökumenn enn þeir sem valda flestum umferðarslysum og eiga hraðakstur og gáleysi þar áberandi þátt.

Þetta er ekki ný umræða á Íslandi. Síðast árið 2006 var frumvarp lagt fram á Alþingi um hækkun aldursins. Kolbrún Baldursdóttir sálfræðingur, sem á sínum tíma var flutningsmaður frumvarpsins, segir að auðvelt sé að leiða líkur að því út frá sjónarmiðum þroskasálfræði að 18 ára unglingar séu hæfari til að taka ábyrgð á sér og lífi sínu en þegar þeir voru 17 ára, m.a. í umferðinni.

Óttaleysi og sjálfhverfa

„Auðvitað er ekki hægt að alhæfa um alla en það er vitað að á þessum aldri er ákveðið kæruleysi, þau halda að ekkert hræðilegt eigi eftir að koma fyrir þau eins og maður sér svo oft í hraðakstrinum.“

Sumarið 2007 tók gildi lagaákvæði um að ökumenn sem eru með bráðabirgðaskírteini sættu akstursbanni fengju þeir fjóra refsipunkta og yrði ekki leyft að aka bíl fyrr en þeir hefðu farið aftur á námskeið og staðist próf. Sem sálfræðingur hefur Kolbrún unnið með ungum ökumönnum á slíkum námskeiðum og segir hún algengt að á þessum aldri eigi þeir erfitt með að setja sig í spor annarra. Því nær sem dragi fullorðinsárum, dragi hins vegar jafnt og þétt úr þessum einkennum.

Bíllinn getur verið drápstæki

Guðbrandur Bogason, skólastjóri Ökuskólans í Mjódd, bendir á að miklum árangri hafi verið náð síðustu ár með aðgerðum sem hafi gjörbreytt ástandinu til hins betra.

Nefnir hann þar m.a. punktakerfið, akstursbannið og markvissari kennslu. „En svo má minna á það að þetta eru einhver mestu almannaréttindi sem fólk fær. Þú færð þarna réttindi til að fara út með eitt mesta drápstæki veraldar og hugsanlega misnota það.“

Víðast hvar í Evrópu miðast bílprófsaldur við 18 ár og bendir Guðbrandur á að þróunin sé öll í þessa átt á Evrópska efnahagssvæðinu.

Þannig hafi aldursmörk fyrir atvinnuréttindi á rútubíla verið hækkuð úr 21 í 24 ár í fyrra og fyrir vörubíla hækki aldurinn úr 18 í 21 nú í september. „Svo að við sjáum hver þróunin er, menn eru að átta sig á að þessi tæki eru engin leikföng.“

Að sögn Guðbrands getur sennilega enginn fært sönnur á að hækkun bílprófsaldurs muni gjörbreyta umferðaröryggi og mörg rök megi færa fyrir báðum hliðum. Sé almenningur hlynntur því muni ökukennarar ekki berjast gegn því.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka